Fara í efni
Íþróttir

KA Íslandsmeistari í blaki? Ókeypis á leikinn

Miguel Mateo Castrillo hefur verið frábær með KA í úrslitakeppninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið KA í blaki getur orðið Íslandsmeistari í kvöld nái það að sigra Hamar úr Hveragerði í KA-heimilinu. Þetta er fjórði úrslitaleikur liðanna.

KA sló lið HK út í 1. umferð úrslitakeppninnar með 3:1 og 3:0 sigrum. Í undanúrslitum unnu KA-menn lið Aftureldingar, töpuðu reyndar fyrst 3:1 í Mosfellsbæ en unnu 3:2 heima og loks aftur 3:2 í Mosfellsbæ. Í undanúrslitunum vann Hamar lið Vestra frá Ísafirði 3:0 í tvígang.

Lið Hamars, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, varð deildarmeistari í vor og átti því heimaleikjaréttinn; fyrsti úrslitaleikurinn fór sem sagt fram í Hveragerði og oddaleikur verður þar, sá fimmti og síðasti í rimmunni, komi til hans.

Meistararnir unnu KA 3:1 í fyrsta úrslitaleiknum á heimavelli, KA svaraði með 3:2 sigri á heimavelli og KA-strákarnir gerðu sér svo lítið fyrir og unnu síðasta leik 3:1 í Hveragerði. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og með sigri í kvöld fá KA-menn því Íslandsbikarinn afhentan

Leikurinn í KA-heimilinu hefst klukkan 19.00 og aðgangur er ókeypis. Það er hugbúnaðarfyrirtækið Stefna sem býður áhorfendum á leikinn.

Pedro Jose Lozano Caballero og Oscar Fernández Celis, tveir af lykilmönnum KA-liðsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson