Jötunhundar – nýtt hundahótel í Hörgársveit

Nýlega opnaði nýtt hundahótel í Hörgársveit, Jötunhundar. Hótelið er staðsett rétt við þjóðveg 1, er með níu stíur og leggur mikla áherslu á hreinlæti og góða aðstöðu fyrir hundana.
„Við höfum alltaf verið hrifin af dýrum og sáum að það var raunveruleg þörf fyrir fleiri hundahótel á svæðinu,“ segir Óskar Harðarson sem á og rekur hundahótelið Jötunhunda ásamt eiginkonu sinni, Hildi Kristínu Thorstensen. Hótelið er staðsett við Jötunheima í Hörgársveit en hjónin keyptu landið af vinafólki og byggðu þar íbúðarhús árið 2022. Í vetur var síðan ráðist í það að byggja sérhús undir hundahótelið.
Sprenging í hundaeign
Þó að fleiri hundahótel séu starfandi í Eyjafirði, segir Óskar að eftirspurnin sé mikil. „Það er bara sprenging í hundaeign hérna. Bara í hverfinu við Lónsbakka eru, að því mér skilst, um fimmtíu hundar,“ segir hann og bætir við að hundaeigendur leiti í auknum mæli að traustri aðstöðu þegar þeir þurfa að ferðast eða sinna öðrum skyldum og geti ekki reitt sig á ættingja.
Það er bara sprenging í hundaeign hérna. Bara í hverfinu við Lónsbakka eru, að því mér skilst, um fimmtíu hundar.
Aðspurður hvaða reynslu þau hjónin hafi af hundum þá segist Óskar hafa verið umkringdur dýrum allt sitt líf en hann ólst upp í sveit. Þá hafi hann unnið mikið með nágrönnum sínum sem eru hundaræktendur og hundaþjálfarar. Hildur Kristín er leikkona að mennt en ólst upp við hestamennsku. Hún hefur einnig reynslu af hundum, m.a. frá Dýraspítalanum í Garðabæ þar sem hún var í starfsþjálfun um tíma. Þá eiga þau hjónin eina Border Collie-tík.
Hundahótelið Jötunhundar er við þjóðveg 1, í 17 km fjarðlægð frá Akureyri.
Heimili þar sem hundarnir eru gestir
Óskar leggur áherslu á að þau reki hundahótelið eins og þau sjálf myndu vilja hafa aðstöðuna sem viðskiptavinir: „Við reynum að hugsa starfsemina út frá því hvernig við sjálf myndum vilja hafa þetta ef við værum að senda hund í pössun,“ segir Óskar og upplýsir að hreinlæti sé í algjörum forgangi, útiskór séu t.d. ekki leyfðir innandyra enda hótelið hugsað meira eins og heimili þar sem hundarnir séu gestir á. Aðstaðan samanstendur af níu stórum stíum. Hver stía er 4 fm að stærð með lúgu út í 4 fm útibúr og geta hundarnir farið inn og út að vild yfir daginn. Dagleg rútína á hundahótelinu innifelur líka heimsókn í útigerði. Óskar segir að fast skipulag sé á öllu og utanumhaldið traust, en allir hundar sem koma á hótelið þurfa að vera örmerktir og með gilt bólusetningarvottorð. „Það er allt upp á tíu hjá okkur.“
Bókanir góðar fyrir sumarið
Þrátt fyrir að starfsemin sé ný af nálinni segir Óskar að bókanir fyrir sumarið séu ágætar en hótelið verður opið allan ársins hring. Segir hann verðið sanngjarnt og engin hámarksdvöl sé á hótelinu. Bendir Óskar hundaeigendum sem þurfa pössun í lengri tíma en þrjár vikur á að þá sé hægt að óska eftir tilboði í verð fyrir dvölina. Staðsetningin er þó ekki síst einn af aðalkostum Jötunhunda. „Við erum aðeins mínútu frá þjóðvegi eitt og í sautján kílómetra fjarlægð frá Akureyri. Húsið sést vel frá þjóðveginum,“ segir Óskar en allar upplýsingar má finna inni á heimasíðu hótelsins, jotunhundar. is.