Fara í efni
Íþróttir

Jóna kjörin formaður ÍBA í stað Geirs Kristins

Jóna Jónsdóttir formaður ÍBA og Geir Kristinn Aðalsteinsson fráfarandi formaður ÍBA að þinginu loknu. Mynd af vef ÍBA.

Jóna Jónsdóttir var kjörin formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) á 66. ársþingi bandalagsins sem fram fór í golfskálanum að Jaðri á þriðjudaginn. Geir Kristinn Aðalsteinsson hefur verið formaður ÍBA síðustu 10 ár og gaf ekki kost á sér áfram.

  • ÍBA er íþróttahérað íþróttafélaga á Akureyri, eitt 25 íþróttahéraða innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og aðili að Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ). ÍBA er tengiliður íþróttafélaganna við bæjaryfirvöld, gætir hagsmuna íþróttahreyfingarinnar á Akureyri gagnvart opinberum aðilum og vinnur að styrkingu og uppbyggingu íþróttastarfsemi héraðsins. Innan ÍBA er skráð 21 aðildarfélag og yfir 40 íþróttagreinar eru í boði fyrir iðkendur.

Þing ÍBA fer með æðstu stjórn bandalagsins og er haldið annað hvert ár. Geir Kristinn fór yfir skýrslu stjórnar og Jón Steindór Árnason gjaldkeri yfir ársreikninga og fjárhagsáætlun félagsins sem var samþykkt á þinginu. 

Gulldrengur! Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ, Geir Kristinn Aðalsteinsson, fráfarandi formaður ÍBA, og Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ. Bæði sæmdu þau Geir Kristin gullmerki. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Meðal gesta á þinginu voru Andri Stefánsson framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ. 

Í tilkynningu á vef ÍBA þar sem fjallað erum þingið segir meðal annars:

„Hulda Mýrdal stofnandi og eigandi Heimavallarins var með frábæran og mjög áhugaverðan fyrirlestur á þinginu sem kom inná stelpur og fótbolta þar sem hún vildi sýna að fótbolti og í raun íþróttir í heild sinni er fyrir okkur öll og draumar geta ræst, líka þegar þú ert #dóttir, því það skiptir máli að eiga fjölbreyttar fyrirmyndir. Draumur stofnenda Heimavallarins er að viðhorf munu breytast og leikurinn muni stækka til framtíðar,“ segir á vef ÍBA.

Gull á gull ofan

Þar segir einnig: „Ný stjórn var kosin þar sem Geir Kristinn Aðalsteinsson og Ómar Kristinsson gengu úr stjórn eftir margra ára setu, Geir eftir 10 ár í formannsstólnum og Ómar sem meðstjórnandi í 4 ár. Geir Kristinn var heiðraður bæði af fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ á þinginu fyrir störf sín í þágu íþrótta í landinu og var honum veitt gullmerki beggja samtaka. Auk þess hlaut hann gullmerki ÍBA fyrir hans óeigingjarna framlag til bandalagsins og í garð íþrótta á Akureyri síðustu ár. Ómar hlaut silfurmerki bandalagsins fyrir sín störf. Jóna Jónsdóttir var kjörin nýr formaður bandalagsins og nýir inn í stjórn eru þeir Alfreð Birgisson og Ásgeir Örn Blöndal.

Stjórn ÍBA er því þannig skipuð eftir þingið. Jóna Jónsdóttir formaður, Birna Baldursdóttir varaformaður, Jón Steindór Árnason gjaldkeri, Sigrúnu Árnadóttir ritari og Alfreð Birgisson meðstjórnandi. Varamenn í stjórn eru Ásgeir Örn Blöndal og María Aldís Sverrisdóttir.

Þess má því til gamans geta að með æðstu stjórn ÍBA fara þrjár konur þar sem formaður og varaformaður eru konur og framkvæmdastjóri bandalagsins einnig.“