Fara í efni
Mannlíf

Jólatrésskemmtun í Kjarnaskógi – MYNDIR

„Ég er afar ánægður með hvernig til tókst. Yfir 100 manns mættu, ungir sem gamlir og áttu saman gæðastund. Hér var ró og friður yfir öllu,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfiringa við Akureyri.net í dag, um jólatrésskemmtun sem haldin var í Kjarnaskógi í gær.

Þegar Birkivöllur í skóginum var vígður 2017 var rauðgrenijólatré plantað gagngert til að dansa í kring um það í fyllingu tímans, að sögn Ingólfs, og sá tími rann upp í gær. Skemmtunin var haldin í samstarfi við Félag eldri borgara á Akureyri og jólasveina sem Ingólfur heldur fram að búi í Kjarnaskógi!

„Það var alger snilld að vera í samstarfi við Félag eldri borgara sem stýrði dansinum og mér sýndist eldra fólkið njóta stundarinnar ekki síður en bornin,“ sagði Ingólfur. Hann stefnir að því að skemmtunin verði árlegur viðburður.