JólaStuð í Lystigarðinum – Páll Óskar mætir
Það verður mikið um að vera í Lystigarðinum á Akureyri síðdegis í dag og fram á kvöld, þegar Orkusalan ásamt fleirum býður upp á fjölskylduviðburðinn JólaStuð. Fjölbreytt dagskrá – jólabasar, jólasveinar, ókeypis veitingar, lúðrasveit og svo mætir sjálfur Páll Óskar á svæðið.
Dagskrá JólaStuðsins:
- Jólabasar Dunda kl. 16:00-20:00 inni í LYST
- Lúðrasveit Akureyrar kl. 17:00-17:30
- Páll Óskar kl. 17:30 - 18:10. Eftir tónleikana verður hægt að fá eiginhandaráritun og kaupa nýju plötuna hans og Benna Hemm Hemm
- Jólasveinar mæta á svæðið
- Heitt kakó, kaffi og smákökur í boði Orkusölunnar og LYST fyrir gesti og gangandi
Í fréttatilkynningu um viðburðinn segir að Orkusalan vonist til að fólk mæti og gleðjist með þeim í aðdraganda hátíðanna. „Við erum styrktaraðilar í Vetrarhlaupaseríu LYST með Ungmennafélagi Akureyrar og höfum séð að það er ekkert eðlilega mikið stuð á Akureyri og miklir möguleikar í Lystigarðinum. Við vildum gera eitthvað meira og úr varð JólaStuð í Lystigarðinum. Við viljum auðvitað líka gefa af okkur til samfélagsins á Akureyri en nýlega hefur fjöldi Akureyringa komið í viðskipti til Orkusölunnar þegar Fallorka hætti sölu á rafmagni. Við lofum mikilli gleði og auðvitað að vera með ykkur í stanslausu stuði,“ segir Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir hjá Orkusölunni í fréttatilkynningunni.
Mikið um að vera á LYST á aðventunni
Reynir Gretarsson, veitingamaður á LYST í Lystigarðinum sagði í samtali við akureyri.net að Orkusalan hefði upphaflega haft samband við sig og haft uppi hugmyndir um að lýsa upp garðinn. „Það er verkefni sem ég hef barist fyrir – að gera Lystigarðinn að viðkomustað allt árið. Sýna hvað garðurinn getur verið fallegur á veturna líka,“ segir Reynir og bætir við að hann hafi komið Orkusölunni í samband við Akureyrarbæ. „Akureyrarbær tók bara vel í þetta og skipulagning fór af stað. Og úr því varð að við ákváðum að hafa jólabasar og stemmningu í kringum hann og þannig varð þessi viðburður til,“ útskýrir Reynir. Hann bætir við að Orkusalan sé búin að lýsa upp heljarinnar ljósaþak við LYST og á honum er að heyra að búast megi við óvæntum ljósalistaverkum á meðan Páll Óskar kemur fram. Sjón verður sögu ríkari!
Eins og Reynir nefndi þá hefur verið baráttumál hjá honum að skapa líf í Lystigarðinum yfir allt árið. Í því skyni hefur verið boðið upp á alls kyns viðburði á LYST og dagskráin núna á aðventunni hefur einmitt verið afar fjölbreytt. „Það er búið að vera mjög mikið um að vera og dagskráin núna fór að þéttast ótrúlega hratt. Ég grínaðist með að þegar þrettán dagar voru til jóla þá átti ég tólf viðburði eftir,“ segir Reynir og bendir á að dagskrána alla megi finna á lyst.is. Margir viðburðanna eru ókeypis og þar segist Reynir njóta aðstoðar Akureyrarbæjar við að gera það kleift. Þótt ekki sé langt til jóla eru enn margir viðburðir á dagskrá og mikið líf og fjör á LYST.„ Ég er enn að ná mér niður eftir síðustu helgi, þá var Elín Hall með tvenna uppselda tónleika,“ segir Reynir sem hefur í mörg horn að líta þessa dagana og leiðist það líklega ekki mikið!