Fara í efni
Mannlíf

Jólapitsa á Tenerife – Varð alveg óvart að hefð

Það sem byrjaði sem góð lausn fyrir foreldra með smábörn á ferðalagi er orðið að hefð sem erfitt er að breyta. Jólapitsan verður á sínum stað á aðfangadag hjá Snæfríði, Matthíasi og dætrum.

„Þetta með pitsurnar átti aldrei að verða að neinni jólahefð heldur bara þægileg lausn á ferðalagi í útlöndum með ung börn. Dæturnar taka hins vegar ekki annað í mál en að fá pitsu á aðfangadag og líta á hana sem okkar „jólahefð“ segir Akureyringurinn Snæfríður Ingadóttir en fjölskylda hennar heldur enn einu sinni óhefðbundin jól á Tenerife.

Akureyri.net hefur áður fylgst með hjónunum Snæfríði og Matthíasi Kristjánssyni sem standa í húsaframkvæmdum á Tenerife.

Sjá hér: https://www.akureyri.net/is/moya/news/hustokufolk-martrod-allra-huseigenda

Að þessu sinni var slegið á þráðinn til þeirra hjóna til þess að heyra um jólahefðir í sólinni.

Jólapitsan varð óvart að hefð hjá Snæfríði og fjölskyldu eftir fjölmörg ferðalög erlendis yfir hátíðarnar.

„Þegar við byrjuðum að koma hingað til Kanaríeyja yfir jól og áramót fyrir 10 árum síðan þá voru dæturnar allar yngri en sex ára. Við hjónin erum í grunninn ekki mikið jólafólk en vildum að sjálfsögðu gleðja stelpurnar á aðfangadag. Við fórum í aðal matvöruverslunina hér, Mercadona, og þær máttu velja hvað yrði í matinn á aðfangadag. Þeim fannst auðvitað mikið sport að finna út úr því. Það sem heillaði dæturnar mest voru frosnar pitsur og skrautlegar ístertur, sem líta alltaf betur út en þær smakkast,“ segir Snæfríður.

Hefð sem er komin til að vera

„Við foreldrarnir hefðum líklega valið eitthvað annað í jólamatinn en þetta voru afar þægileg og afslöppuð jól og dæturnar voru yfir sig ánægðar. Á meðan stelpurnar voru enn litlar héldum við áfram að leyfa þeim að velja jólamatinn og alltaf urðu pitsur fyrir valinu hjá þeim. Ég hef reynt að breyta þessu nú þegar þær eru orðnar eldri og með þroskaðri matarsmekk, en þær taka ekki annað í mál en að hafa pitsu í matinn á aðfangadag. Jólapitsan er orðin að hefð og í hana skal haldið sama hvað. Ég er að reyna að fá þær til að fara á veitingastað í ár og fá pitsu þar, við sjáum til hvort mér tekst að þoka hefðinni a.m.k í þá átt.“

Á gamlárskvöld fagna heimamenn nýju ári á næsta torgi með lifandi tónlist, áfengi, vínberjum og dansi undir berum himni.

Nýtt ár dansað inn utandyra

Spurð út í almennar jólahefðir heimamanna á Tenerife segir Snæfríður að þær séu frekar afslappaðar. „Þann 24. desember er algengt að heimamenn mæli sér mót við vini og kunningja á börum eða ströndinni yfir daginn en borði svo saman með stórfjölskyldunni um kvöldið. Þá hefur færst í aukana að krakkar fái gjafir þann 25. des, það er amerískur siður sem hefur verið að ryðja sér til rúms, en aðal hátíðardagurinn er ekki fyrr en 6. janúar þegar konungarnir þrír koma til byggða með gjafir handa börnunum. Hér eru jólaskreytingar á hverju horni, en sumar þeirra eru frekar fyndnar. Það er eitthvað kómískt við að hreindýrum með sleða sé stillt upp á milli kaktusa og pálmatrjáa. Svona skreytingar passa mun betur í snjó. Skemmtilegasta hefðin í kringum þessa hátíðisdaga finnst mér vera dansiballið utandyra á gamlárskvöld. Öll sveitarfélög standa fyrir slíkum viðburðum en þá fjölmenna heimamenn út á torg og skála í víni, bjór og mojito, borða tólf vínber á miðnætti og dansa nýja árið inn undir berum himni við dúndrandi kanarískra tónlist.“

Gamlárskvöld á Tenerife. Hjónin úti á torgi að taka á móti nýju ári með heimamönnum.

Skoða nýjar slóðir

Varðandi húsaframkvæmdir þeirra hjóna þá segir Snæfríður að lítið hafi verið að gerast í þeim málum undanfarið þar sem fjölskyldan hafi verið töluvert á faraldsfæti í desember. Þau hafi gert íbúðaskipti víðsvegar um eyjuna og nýtt tímann til þess að skoða nýjar slóðir og safna efni í nýja handbók sem Snæfríður er með í vinnslu. Á nýju ári byrjar hins vegar húsaframkvæmdir aftur af fullum krafti. Áhugasamir geta fylgst frekar með gangi mála á Insta story hjá Snæfríði undir @ohyesyoucan.

Blómstrandi jólastjörnur prýða blómabeð víða á Tenerife um jólaleytið.