Fara í efni
Menning

Jólapartý og jólailmur - Salsa og Singer Jung

Hvaða menningarviðburðir eru í boði á svæðinu þessa vikuna? Akureyri.net skellir í samantekt í byrjun hverrar viku, þar sem lesendur geta séð hvað verður á seyði og penslað inn í dagatalið.

Leiksýningar

  • Elskan er ég heima? – Fyrsta verk leikársins hjá Leikfélagi Akureyrar. Samkomuhúsið, fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld kl. 20.00.
  • Jólakötturinn - Jólaævintýri í Freyvangsleikhúsinu. Frumsýnt föstudagskvöld kl. 20 og einnig sýnt laugardag og sunnudag kl. 13. Jólakötturinn er frumsamið jólaævintýri eftir Jóhönnu S. Ingólfsdóttur í leikstjórn höfundar. „Höfundur byggir söguna á hinum alíslenska jólaketti eins og flestir þekkja hann, en blandar svo inní allskyns sögupersónum sem flestir kannast líka við,“ segir í tilkynningu frá Freyvangsleikhúsinu.

The Vintage Caravan mæta á Græna hattinn á föstudagskvöldið, nýkomnir úr Evróputúr.

Tónleikar

  • Dana Ýr með tónleika í Deigunni – Deiglan, Listagilinu, fimmtudag kl. 20:00. Dana er söngkona og lagahöfundur og tónlist hennar blandar saman rokki, blús og sálartónlist. Hún stundaði nám í skapandi tónlist í Tónlistarskólanum á Akureyri og lærði til CVT (Complete Vocal Technique) kennara í Danmörku en flutti nýlega aftur til Akureyrar og gaf út nýja smáskífu - ÓKYRRÐ.
  • The Vintage Caravan – Græni hatturinn, föstudagskvöldið 21. nóvember. Hljómsveitin fagnar útgáfu 6. plötu sinnar, Portals. Platan verður flutt í heild sinni fyrir hlé og svo fá gamlir og góðir slagarar frá fyrri plötum að hljóma í seinni hálfleik. Ásamt hljómsveitinni stíga sérstakir gestir á stokk og í tilkynningu segir að hljómsveitin sé nýkomin heim eftir mánaðarlangt tónleikaferðalag um Evrópu og sé því í góðu spilaformi.
  • Hr. Eydís og Erna Hrönn – Græni hatturinn, laugardagskvöldið 22. nóvember kl. 21:00. Hr. Eydís og Erna Hrönn snúa aftur á Græna hattinn til að halda ALVÖRU ’80s JÓLAPARTÝ. Hljómsveitin ætlar að þjófstarta jólunum með öllum bestu ’80s jólalögunum í bland við stærstu smellina frá þessum stórkostlega áratug, að því er segir í kynningu.

Á sunnudaginn verður fjölskylduleiðsögn um sýningu Óla G. í Listasafninu og listsmiðja.

Listasýningar

Húmor og menning - Amtsbókasafnið á miðvikudag kl. 16-18.

Viðburðir

  • Húmor og menning - Amtsbókasafnið í dag, miðvikudag, kl. 16-18. Kynning á nýrri bókaröð sem sameinar Ísland og Kanada. Alþjóðlegur hópur fræða- og listafólks ásamt grínista koma saman í Amtsbókasafninu í tilefni útgáfu nýrrar bókaseríu hjá Northwest Passage Books í Kanada, eftir Giorgio Baruchello, prófessors við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Erindi, uppistand og opin umræða fyrir almenning munu fara fram í afslöppuðu andrúmslofti með kaffi og köku í hönd, að því er segir í tilkynningu. Ókeypis aðgangur. Viðburðurinn fer fram á ensku.
  • Salsakvöld og ókeypis prufutími - Fimmtudaginn 20. nóvember kl. 20 á Vamos. SALSA NORTH í samstarfi við VAMOS býður Akureyringum og nærsveitungum upp á salsakvöld annan hvern fimmtudag í vetur, að því er segir í tilkynningu. Frí salsakennsla fyrir byrjendur milli kl. 20:00 og 20:30 og svo opið dansgólf.
  • Singer Jung - Deiglan föstudag 21. nóvember kl. 17-19. Einnig opið laugardag og sunnudag kl. 13-17. Singer Jung er listamaður frá Suður-Kóreu sem vinnur með málverk, myndbönd og frásagnir og kannar tengslin milli tungumála, fólks, og staða. Singer Jung hefur undanfarið dvalið á Íslandi og sýnir hér verk sem eru innblásin af dvölinni hér.
  • Fjölskylduleiðsögn og listsmiðja – Sunnudaginn 23. nóvember kl. 11-12 í Listasafninu á Akureyri. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar, mun segja börnum og fullorðnum frá verkum Óla G. Jóhannssonar á sýningunni Lífsins gangur. Að lokinni leiðsögn er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum sýningarinnar. Aðgangur er ókeypis.
  • Jólailmur I Hönnunar og handverkshátíð – Hof menningarhús, sunnudag 23. nóvember kl. 12-19. Handverk og hönnun, ásamt sælkeramat beint frá býli. Yfir 30 sýnendur taka þátt.


Suður-kóreska listakonan Singer Jung verður með sýningu í Deiglunni frá föstudegi til sunnudags.


Endilega sendu póst á valur@akureyri.net ef að þú vilt koma þínum viðburði á listann. Viðburðurinn þarf að vera opinn öllum.