Fara í efni
Mannlíf

Jólakvöld Davíðs í Svörtum fjöðrum

Davíð Stefánsson og móðir hans, Ragnheiður Davíðsdóttir.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

10. desember – Jólakvöld

Ljóðabókin Svartar fjaðrir er ein mest lesna og selda ljóðabók Íslandssögunnar. Bókin kom út árið 1919 og var fyrsta bók Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Í bókinni er ljóðið Jólakvöld sem er nokkurs konar saknaðaróður Davíðs til móður sinnar, Ragnheiðar Davíðsdóttur.

Ljóðið Jólakvöld var jólalag Ríkisútvarpsins árið 1997. Tryggvi M. Baldvinsson samdi lagið sem flutt er af fimm kórum sem Guðmundur Emilsson stjórnar en Marteinn H. Friðriksson leikur á orgel. Smellið hér til að hlusta. 

Á plötunni Jólakveðja, sem kom út árið 2013, syngur Sigríður Thorlacius söng einstaklega snoturt lag eftir Guðmund Óskar Guðmundsson og Bjarna Frímann Bjarnason við ljóðið Jólakvöld. Smellið hér til að hlusta á það.

Jólakvöld

Nú skal leika á langspilið veika
og lífsins minnast í kveld,
hjartanu orna við hljóma forna
og heilagan jólaeld,
meðan norðurljós kvika og blástjörnur blika
og boganum mínum ég veld

Ég blundaði hljóður við brjóst þín móðir,
sem blómið um lágnættið.
Þú söngst um mig kvæði; við sungum það bæði
um sakleysi, ástir og frið.
Þú gafst mér þann eld, sem ég ennþá í kveld
get ornað hjartanu við.

Þú hófst mína sál yfir hégóma og tál
og hug mínum lyftir mót sól.
Þú gafst mér þá þrá, sem ég göfugasta á,
og gleði sem aldrei kól.
Ef ég hallaði mér að hjarta þér,
var mér hlýtt; þar var alltaf skjól.
En útþráin seiddi mig ungan og leiddi
á ótroðinn skógarstíg.
Þrestirnir sungu; þyrnarnir stungu,
og þorstinn kvaldi mig;
þá græddi það sárin og sefaði tárin
að syngja og hugsa um þig.

Og nú vil ég syngja og sál mína yngja
með söngvum um lágnættið hljótt
og hvísla í norður ástarorðum,
meðan allt er kyrrt og rótt,
og láta mig dreyma um ljósin heima,
sem loga hjá mömmu í nótt.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.

Langspil í Davíðshúsi.