Fara í efni
Menning

Jólakötturinn búinn að gjóta í Freyjulundi

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir leyfir jólakettinum að gjóta á vinnustofu sinni á aðventunni. Kettlingarnir eru í fæðingu og bíða nýrra eiganda á aðventuopnun í Freyjulundi um helgina. Mynd af Aðalheiði: Norbert Von Niman.

Listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og fjölskylda hennar eru með opna vinnustofu á heimili sínu í Freyjulundi á aðventunni. Þar gefur að líta ýmis smáverk sem ratað gætu í jólapakka. Um meira en tuttugu ára gamla hefð er að ræða sem er orðin ómissandi hluti af jólaundirbúningnum hjá listakonunni.

„Ég er búin að vera að gera þetta alveg síðan árið 2000,“ sagði Aðalheiður þegar akureyri.net sló á þráðinn til hennar til að spyrja úr í aðventuopnun í Freyjulundi um komandi helgi. „Ég var fyrst með aðventuopnun á vinnustofunni minni í Gilinu árið 2000 en frá 2005 hefur aðventuopnunin verið í Freyjulundi. Þangað getur fólk komið til að finna listmuni til jólagjafa, spjalla og eiga notalega stund fyrir jólin.“

Jólakettir Aðalheiðar eru vinsælar jólagjafir. Þeir hafa tekið nokkrum breytingum í gegn um árin og enginn tveir eru eins. 

Jólakettlingarnir sívinsælir

Aðventuopnun í Freyjulundii verður frá föstudeginum 28. nóvember til sunnudagsins 30. nóvember milli klukkan 12 og 18 og svo aftur síðustu helgina fyrir jól sem og á Þorláksmessu. Segir Aðalheiður að áhersla verði lögð á notalega stemningu, heitt verður á könnunni og meðlæti í boði. Á vinnustofunni er að finna verk eftir Aðalheiði, Jón Laxdal heitinn, Þóreyju, Arnar og Brák, sem öll fást við listir. Þá verður Aðalheiður einnig með aðventuopnun og sýningu í Kompunni í Alþýðuhúsinu Siglufirði dagana 5.-14. desember milli kl. 14 og 17.

Á þessum árum sem Aðalheiður hefur opnað vinnustofu sína á aðventunni, hefur fjöldi manns nýtt sér að kaupa minni skúlptúra sem henta vel í jólapakkann. Jólakettirnir eru þó alltaf langvinsælastir. Kettina smíðar Aðalheiður fyrir hver jól úr afgöngum úr stærri verkum sem hún hefur unnið að á árinu. Hún segist safna þessum kubbum saman yfir árið og fer svo að vinna úr þeim þegar líður að jólum. „Fyrst voru kettirnir mjög einfaldir í smíði og með málað andlit. Síðan fóru þeir að verða meiri svona þrívíðari skúlptúrar. Þá hætti ég að mála andlit á þá og hef þá bara svarta því þá nýtur formið sín líka betur, en hver köttur er alltaf einstakur,“ segir Aðalheiður og upplýsir að kettirnir eigi sér marga trygga aðdáendur og sumir kaupi nýjan jólakött á hverju ári og safni þeim.

Freyjulundur var áður félagsheimili en þar er nú heimili og vinnustofa listakonunnar Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Aðventuopnun hefur verið fastur liður í Freyjulundi síðan 2005 og sýnir og selur öll fjölskyldan þá verk sín. Opið verður fyrstu og síðustu helgi á aðventunni sem og á Þorláksmessu. 

Jólakötturinn kemur við á leið sinni á Ráðhústorg

Þá hafa kettirnir ekki bara þróast í höndum Aðalheiðar heldur hafa þeir fengið sína eigin jólasögu; „Jólakötturinn á heima í Kötlufjalli við utanverðan Eyjafjörð. Þar liggur hann í dvala þangað til í nóvember. Þá fer hann að láta kræla á sér og kemur við í Freyjulundi þar sem hann gýtur öllum litlu jólakettlingunum hjá mér. Síðan heldur hann leið sinni áfram niður á Ráðhústorgið þar sem hann stendur jólavertíðina og heldur svo til baka í Kötlufjall,“ segir Aðalheiður. Eitthvað af þessum nýgotnu kettlingum fara strax til nýrra eiganda, aðrir ílengjast hjá Aðalheiði en allir fara þeir að lokum að heiman.

Í Freyjulundi er auk jólakettlinganna einnig að finna fjölbreytt safn smáverka af ýmsu tagi eins og fugla, kindur, álftir, hunda, fólk og fjöll. Allt sprettur þetta úr sama hráefni: „Ég nýti alltaf alla afganga,“ segir Aðalheiður og upplýsir að nýjungin í ár séu lítil hreindýr - og kannski eitthvað fleira. „Ég er bara á fullu að vinna þetta núna,“ segir hún og bætir við að hún geri einnig hrafna, ketti og lömb í raunstærð fyrir hver jól sem eru til sölu nú.

Dýr í raunstærð, skúlptúrar eftir Aðalheiði.

Listræn fjölskylda

Eins og áður segir þá er það ekki bara verk Aðalheiðar sem eru til sýnis og sölu í Freyjulundi heldur verk eftir alla fjölskylduna, en öll eru þau að fást við listir. Brák Jónsdóttir, sem er að ljúka mastersnámi í myndlist í Bergen, vinnur skúlptúra úr leir og fjölbreyttum efnum. Arnar Ómarsson, sem býr í Danmörku, og á að baki mastersnám í myndlist, vinnur stafræn þrívíð verk byggð á ljósmyndum og Þórey Ómarsdóttir blandar saman skrifuðu máli og vatnslitum og vakti nýlega athygli með sýningu á Bláu könnunni. Þá verða einnig til sýnis og sölu á staðnum fjölbreytt verk eftir Jón Laxdal heitinn, eiginmann Aðalheiðar. „Það er ekki alltaf tækifæri til þess að koma og sjá verkin hans en ég stilli verkum hans upp á aðventunni svo fólk geti notið þeirra,“ segir hún.

Allir afgangar eru nýttir hjá Aðalheiði í  ýmis smáverk sem ratað gætu í jólapakka.

Notaleg heimsókn sem auðgar andann

Aðalheiður er annars nýkomin heim úr tveggja mánaða vinnustofudvöl erlendis. Fyrst dvaldi hún á eyjunni Mors í Danmörku en færði sig síðan til Árósa. Þaðan fór hún til Amsterdam og endaði svo á fjögurra vikna vinnustofudvöl í Bergen. Á öllum þessum stöðum hélt hún sýningar eða gjörninga. „Það er alltaf gott að fara í svona ferðir og aftengja sig öllu sem er hér heima og einbeita sér bara að stað og stund og því sem maður er að fást við á þeim tíma. Ég fylli alveg á batteríin í svona ferðum,“ segir Aðalheiður sem er heldur betur klár í aðventuopnun sem er fyrir löngu orðinn órjúfanlegur hluti af jólaundirbúningi hennar sjálfrar sem og margra fastra gesta sem til hennar koma.

„Fólk kemur hingað í Freyjulund ekki endilega til þess að versla heldur ekki síður til að sækja í notalega stund og auðga andann. Þetta er ekki búð og það er ekki ætlast til þess að fólk kaupi neitt þegar það gengur inn um dyrnar. Stemningin er heimilisleg, með kaffi, spjalli og rými til að njóta listaverka. Og það er svo notalegt að fá þannig heimsóknir,“ segir Aðalheiður og heldur áfram. „Þá er líka gaman þegar fólk kemur hingað í jólastuði og vill kaupa verk handa þeim sem því þykir vænst um. Það er ofboðslega góð tilfinning að vera lítill þáttur í því.“

Fjölbreyttur jólamatur og grímuball

Aðspurð um eigin jólahefðir, fyrir utan aðventuopnun á vinnustofunni, segist hún leggja áherslu á að sjálf jólahátíðin sé róleg eftir annasaman desember. „Ég er löngu hætt að baka því að það borðar enginn orðið lengur þessar smákökur, við erum meira fyrir desserta, en ég held enn í laufabrauðið. Annars reynum við að hafa sem minnst stress um jólin og njóta þess að vera saman. Við leggjum mikla áherslu á matinn, þó ekki endilega þennan hefðbundna jólamat. Við erum alveg hætt í jólasteikunum, það eru svo margir í fjölskyldunni plöntumiðaðir í fæðu og við eldum bara það sem okkur langar í hverju sinni. Jólamaturinn hefur verið mjög fjölbreyttur hér á heimilinu og er aldrei eins. Við erum oft með erlenda gesti yfir hátíðarnar og allir elda saman yfir daginn. Síðan taka við rólegheit, bækur, spil og göngutúrar. Yfir áramótin erum við svo á Siglufirði þar sem við erum alltaf með búningapartí á gamlárskvöld í Alþýðuhúsinu fyrir vini og vandamenn,“ segir Aðalheiður að lokum.