Fara í efni
Mannlíf

Jólabarnið Ronja var í „skóflufluginu“ á leið til Akureyrar

Ronja Axelsdóttir van de Ven við andapollinn á Akureyri, þar sem börnin í Icelandair auglýsingunni renna sér á skautum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Árleg jólaauglýsing Icelandair, sem sýnd er í sjónvarpi bæði hér heima og erlendis, vekur jafnan mikla athygli enda mjög vandað til verks. Sagan sem sögð er í auglýsingu ársins er byggð á sönnum atburðum og hefur skemmtilega tengingu við Akureyri. Auglýsingin er að stórum hluta tekin upp í bænum.

Flugmaður Icelandair tók sig til rétt fyrir jólin 2010 og mokaði snjó frá Icelandair vél á Schiphol flugvellinum í Amsterdam þannig að fluginu var ekki aflýst eins og öðrum frá vellinum þann dag! Einn farþeganna Ronja Axelsdóttir van de Ven, var á leið til Akureyrar í jólafrí, alveg að verða sex ára. Nú, áratug síðar, er Ronja búsett á Akureyri og stundar nám við MA.

Ronja fæddist í Reykjavík 24. desember 2004 en flutti þriggja ára gömul með móður sinni til Hollands. Þar býr móðurfólk hennar en föðurfólkið á Íslandi. Ronja ferðaðist oft ein milli landanna tveggja og fannst það lítið mál.

Öllu flugi aflýst

Fáeinum dögum fyrir sex ára afmælið lá leiðin frá Hollandi heim til ömmu á Akureyri í jólafrí, í fylgd með frænda sínum. Móðir Ronju fylgdi frændsystkinunum á flugvöllinn þennan dag og snéri að því búnu heim til Eindhoven með lest. Veðrið hafði verið leiðinlegt í Hollandi og kominn talsverður snjór. Það hægðist mjög á samgöngum í landinu og öllu flugi frá Schiphol var aflýst; þar á meðal flugi Ronju með Icelandair heim til Íslands. Ástæða þess að fluginu var aflýst var, að ekki var hægt að komast að vélinni með þau tæki og tól sem á þurfti að halda vegna snjóþunga.

Flugmaðurinn ekki á því að gefast upp

Í áhöfninni var flugmaður sem var mjög í mun að komast heim fyrir jól. Hann og konan hans áttu von á fæðingu fyrsta barns þeirra og hann hafði ekki í huga að missa af því augnabliki. Flugmaðurinn segir frá því í Ísland í dag á Stöð 2 að hann, ásamt flugstjóranum, hefðu tekið sér skóflur í hönd og mokað undan vængnum svo olíubíll kæmist að vélinni; og hann hélt áfram að moka leið fyrir öll þau tæki sem þurftu að komast að til að búast til brottfarar.

Þetta var eina flugvélin sem fór í loftið frá Schiphol þennan dag!

Langur dagur í lífi móður

Móðir Ronju heyrði að fluginu til Íslands hefði verið aflýst og snéri aftur til Schiphol með lest til að sækja frændsystkinin. Sú ferð hefði átt að taka tvær klukkustundir og tuttugu mínútur. – Hún tók 12 klukkustundir þennan dag! En þegar móðirin loksins komst á leiðarenda var flugvél Icelandair farin í loftið! Þetta var því mjög langur dagur í lífi móður en allt fór þó vel að lokum. Ronja var glöð með að komast heim og það sama má líklega segja um aðra farþega og áhöfn flugvélarinnar.

„Skrýtið að hafa verið í þessum aðstæðum“

Í áðurnefndri jólaauglýsingu Icelandair, sem að mestu leyti er tekin upp á Akureyri, er söguþráðurinn einmitt þessi eftirminnilega flugferð. Í samtali við Akureyri.net sagðist Ronja ekki hafa vitað að þetta flug væri söguþráður í auglýsingu fyrr en hún sá innslag á N4 þar sem sýnt var frá tökum hennar. Nú er Ronja búin að sjá auglýsinguna og fannst hún skemmtileg. Hún man eftir sér á Schiphol þennan dag. Hún man eftir biðinni og hvernig hún reyndi að hafa ofan af fyrir sér. Hún man þó ekkert sérstaklega eftir sjálfri ferðinni en segir: „Ég hef alltaf vitað af þessu flugi en það var magnað að sjá þetta lifna við. Allt verður raunverulegra. Skrýtið að hafa verið í þessum aðstæðum og þátttakandi í þessari sögu.“

Jólaauglýsingin hefst á aðfangadag jóla, þar sem ungur drengur fær skauta í jólagjöf. Fylgst er með drengnum nýta hugaraflið til að ná ætlunarverki sínu; hann mokar snjó til að komast út úr húsi, og til að hreinsa skautasvellið af snjó svo hann geti skautað með vinum á jóladag. Þarna hugsar flugmaðurinn sem um ræðir til baka.

Röð tilviljana tengir Ronju mjög við þessa fallegu jólaauglýsingu Icelandair. Hún er fædd á aðfangadag jóla, býr á Akureyri og var farþegi í þessu sögulega ferðalagi. Það er merkilegt hvernig líf fólks getur tvinnast í atburðarás sem þessari, sem átti sér stað á aðventunni árið 2010.

Hér má sjá þessa flottu auglýsingu sem að stórum hluta er tekin upp á Akureyri.

Hér má sjá viðtalið á Stöð 2 við flugmanninn, Börk Strand Óttarsson.

Ronja á lestarstöðinni í Amsterdam í ferðinni frægu; þar skiptu hún, móðir hennar og frændinn um lest til að komast út á flugvöll.  „Þarna er Ronja að biðja veðurguðina að koma sér til Íslands,“ sagði móðir hennar við Akureyri.net.

  • Að ofan: Ronja á Schiphol flugvelli þegar hún beið eftir fluginu til Íslands.