Fara í efni
Menning

Jóhann, góðir gestir og troðfull minningakista

Kristján Jóhannsson og Jóhann Sigurðarson hafa verið vinir til áratuga. „Konnarinn“ kemur fram á tónleikum Jóhanns í Hofi. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Kristján Jóhannsson, einn af óskasonum Akureyrar, syngur ekki á hverjum degi í gamla heimabænum enda búsettur fjarri, en „Konnarinn“ stígur á svið í Hofi um næstu helgi  – laugardaginn 11. október. Tónleikarnir það kvöld verða að vísu ekki í nafni Kristjáns heldur er um að ræða viðburðinn 44 ár á fjölunum þar sem leikarinn og söngvarinn Jóhann Sigurðarson fer í gegnum feril sinn með söngvum og sögum, ásamt fjölda gesta.

„Við erum mjög spenntir. Það verður mjög gaman að koma norður,“ sagði Kristján eldhress þegar blaðamaður hitti þá Jóhann að máli á dögunum. „Kristján er ótrúlegur; hann er orðinn 77 ára en í fantaformi,“ bætir Jóhann við en auk Konnarans verður fjöldi góðra gesta með í för, m.a. stórsöngvarinn Kristinn Sigmundsson. „Ekki dónalegt að vera með tvo sem hafa sungið í þekktustu óperuhúsum heimsins!“ segir Jóhann.

Jóhann Sigurðarson hefur leikið í fjölda sýninga í gegnum tíðina. Hann hefur verið fastráðinn bæði við Þjóðleikúsið og Borgarleikhúsið en starfar nú í lausamennsku; er orðinn eigin herra. 

Jóhann Sigurðarson hefur verið í hópi þekktustu leikara þjóðarinnar í áratugi – eins og nafn viðburðarins gefur til kynna, og hefur einmitt sungið mikið í leikritum í gegnum tíðina. Ekki er víst að mörgum sé það kunnugt, en Jóhann er einnig menntaður söngvari, og var samtíða Kristján á Ítalíu í eitt ár fyrir margt löngu við söngnám.

Sneisafull kista

„Þegar ég fór í minningakistuna til þess að taka saman lög kom í ljós að hún var sneisafull! Ég vissi auðvitað að þar var margt að finna en ég tók meira upp úr henni en ég átti von á,“ segir Jóhann. Margt af því sem sótt var í kistuna verður þó ekki flutt á tónleikunum; Jóhann hefur sungið svo mörg þekkt lög á áratugi ferli að ekki var tími fyrir það allt, eins og nærri má geta.

„Ef ég væri ríkur ...“ Jóhann Sigurðarson sem Tevje mjólkurpóstur í Fiðlaranum á þakinu, í Þjóðleikhúsinu árið 1997.

Jóhann og samstarfsfólk hans buðu upp á samskonar sýningu í Borgarleikhúsinu „og hún tókst ofboðslega vel. Gangverkið í sýningunni var mjög fínt,“ segir leikarinn, og var hreint ekki einn á þeirri skoðun að vel hefði tekist til. „Frábærlega skemmtilegir tónleikar. Unnir af fagfólki. Það var ekki bara góður söngur og hljóðfæraleikur. Húmorinn var með,“ skrifaði Sigurjón M. Egilsson á vef sinn, midjan.is. „Það var mikið hlegið. Miðað við andlit gestanna þegar haldið var heim, var þannig að sjá máttu fimm stjörnur í hverju andliti,“ sagði Sigurjón.

Fjölmennt á sviðinu

Auk þremenninganna verða á sviðinu í Hofi 70 manna Karlakór Kópavogs undir stjórn norðanmannsins Sigurðar Helga, einnig sjö manna hljómsveit undir stjórn Pálma Sigurhjartarsonar og söngvararnir Jóhanna Vigdís Arnardóttir – sú þekkta leikkona er jafnan kölluð Hansa, Örn Gauti sonur Jóhanns, Valgerður Guðnadóttir og Unnur Birna Björnsdóttir. Auk þess að syngja leikur Unnur Birna eins og engill á fiðlu; margir Akureyringar kannast við hana enda ólst hún hún upp í tónlist í höfuðstað Norðurlands, þar sem foreldrar hennar stofnuðu og ráku tónlistarskólann Tónræktina; Björn „Bassi“ Þórarinsson og Sigríður Birna Guðjónsdóttir.

Leikhúsgestir koma gjarnan baksviðs að sýningum loknum. Hér eru Jóhann og Hollywood-stjarnan Jodie Foster eftir sýning á söngleiknum Níu lífum í Borgarleikhúsinu. Í verkinu er fjallað um líf goðsagnarinnar Bubba Morthens. 

Jóhann segist ætla að stikla á stóru yfir ferilinn en mörg þekkt lög verða sungin; m.a. flytur hann sjálfur lög úr Vesalingunum, úr Fiðlaranum á þakinu, úr Showboat, Jesus Christ Superstar og ýmsum vinsælum teiknimyndum; Konungi ljónanna, Aladdín, Hringjaranum í Notre Dame, að ógleymdum Gosa, en það lag varð geysilega vinsælt.

Vert er að nefna að Kristján mun syngja lag úr Guðföðurnum – „Yndislegt lag, með frábærum texta eftir Þorstein Eggertsson. Þetta er frumflutningur textans sem verður mjög sérstakt að flytja; hann er í raun ástarsaga okkar hjóna,“ segir Kristján.

Ómetanleg hjálp

Þar sem við sitjum þrír á kaffihúsi á borgarhorninu renna upp úr Jóhanni og Kristjáni skemmtilegar sögur, hver af annarri; þær verða vitaskuld ekki sagðar hér en einhverjar þeirra verða látnar flakka. Þeir skella reglulega upp úr, sem fer ekki fram hjá neinum; engin ástæða er til að listamenn af þessu tagi lækki róminn að ráði!

Jóhann nam söng á sínum tíma sem fyrr segir, fyrst hjá Sigurði Demetz Franzsyni. „Ég var ekki útskrifaður úr leiklistarskólanum þegar ég byrjaði hjá Demetz, var alls fimm ár hjá honum, og svo tvö ár Kristni Sigmundssyni.“ 

Jóhann hélt svo til Ítalíu 1980 og var eitt ár við nám ytra. Hann bjó í grennd við Kristján sem þá hafði dvalið fjögur ár í því mikla óperulandi og segist aldrei geta þakkað honum nógsamlega fyrir alla aðstoðina; „Konnarinn“ lánaði fjölskyldu Jóhanns bíl, útvegaði kennara og svo mætti lengi telja.

Nóg af tenórum!

Jóhann rifjar upp að fyrir jólin aðstoðaði hann Kristján við að setja upp jólaseríu utan á húsið. „Mér leist ekkert á blikuna þegar Kristján var uppi á þaki og teygði sig fram af þakskegginu; hann skagaði hálfur fram af, og ég bað hann að passa sig, en minn maður gantaðist með að nóg væri til af tenórum í heiminum!“

Aðstoðarmaðurinn vissi svo sem að tenórar væru margir, en magn er ekki sama og gæði ... Öllu skipti að stórtenorinn, Il Grande Tenore, yrði sér ekki að voða, og allt fór vel. Síðan eru liðin mörg ár, margar jólaseríur hafa verið festar upp, og mörg falleg lög verið flutt. Þau sem hljóma í Hofi næsta laugardagskvöld eru líklega greypt í huga fjöldans og ekki ósennilegt að margir söngli með, að minnsta kosti í huganum.