Íslenska sjókonan: námskeið fyrir 8-10 ára

Um næstu helgi verður haldið tveggja daga skapandi námskeið í Sigurhæðum á Akureyri þar sem ímyndunaraflið fær að ráða för. 8-10 ára börn kafa ofan í sögu íslensku sjókonunnar, búa til persónur, sögur og ævintýri úr fundnu efni úr fjörunni. Leiðbeinendur eru Marsibil Sól Þórarinsdóttir Blöndal og Salóme Bregt Hollanders en þær eru báðar útskrifaðar frá Listaháskóla Íslands og fæddar og uppaldar á Akureyri og í Eyjafirði. Þær hafa mikla reynslu af skapandi vinnu með börnum, segir í fréttatilkynningu frá Flóru menningarhúsi í Sigurhæðum.
Æfing í skapandi miðlun
Á námskeiðinu verður lögð rík áhersla á tengingu barna við hafið í gegnum frásagnir af lífi, raunum og afli íslensku sjókonunnar ásamt því að örva ímyndunarafl barnanna í gegnum hlutbundna á skynræna nálgun á viðfangsefninu, segir í tilkynningunni. Markmiðið er að börnin æfi skapandi miðlun og þrói listræna tengingu við viðfangsefni námskeiðsins. Börnin fá að hlusta á hljóðverk byggt á sjávarhljóðum, öldungangi, fuglakvaki og fjöruskrölti.
Ýmsir hlutir sem fundist hafa í fjöru koma við sögu í ferlinu, t.d. gamlar töskur, rekaviður, skeljar, lyklar, speglar, bein, kaðlar eða aðrir smáhlutir; hver hlutur geymir sína sögu, afdrif og ævintýri og þau velja sér einn hlut og skapa honum persónu, karakter og sögu.
Ljúka námskeiðinu með sýningu
Í lok námskeiðsins verður haldin sýning á afrakstri barnanna fyrir foreldra, aðstandendur og gesti þar sem verk þeirra verða saman að spennandi og lifandi heild. Listakonurnar segja að markmiðið með námskeiðinu sé að örva ímyndunarafl barna í gegnum hlutbundna og skynræna nálgun og einnig að skapa sögulega tengingu barna við hafið út frá frásögnum um íslenskar sjókonur. Námskeiðið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands og það er ekkert þátttökugjald en 2.000 kr í skráningargjald og mikilvægt er að skrá börnin hjá flora.akureyri@gmail.com
Lengd námskeiðsins eru tveir dagar, laugardagur 13. september og sunnudagur 14. september kl. 13-16, ásamt lokasýningu fyrir foreldra, aðstandendur og gesti kl. 16 á sunnudaginn.
Hér má skoða viðburðinn á Facebook.