Fara í efni
Menning

„Íslendingum þykir mjög vænt um fugla“

Helsingjar verða til, samkvæmt þjóðtrú fyrri alda. Vatnslitamynd eftir bandaríska háskólakennarann o…
Helsingjar verða til, samkvæmt þjóðtrú fyrri alda. Vatnslitamynd eftir bandaríska háskólakennarann og listakonuna Jennifer Landin.

Séra Sigurður Ægisson á Siglufirði, sem hefur lengi haft mikinn áhuga á fuglum, gaf út stóra fuglabók árið 1996. Hún nefndist Ísfygla og nú er Sigurður aftur á ferðinni með bók sem hann kallar Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Hana hóf presturinn að undirbúa um það leyti sem hin varð að veruleika.

„Þetta er alþýðlegt fræðirit og markhópurinn í raun Íslendingar allir. Við höfum almennt ofboðslegan áhuga á fuglum; Íslendingum þykir mjög vænt um fugla,“ segir Sigurður í samtali við Akureyri.net. „Ég veit um tvær íslenskar fuglasíður á Facebook og eina þar sem fjallað er nær eingöngu um matargjafir til þeirra. Svo er ein merkingarsíða og eitthvað fleira. Á þessum síðum eru þúsundir manna, mjög margir gefa fuglum reglulega og almennt njóta þeir mjög mikillar velvildar, sem betur fer.“

Á Íslandi hafa sést 409 fuglategundir, að sögn Sigurðar, og af þeim verpa hér reglulega um 75. „Ég ákvað að taka það viðmið Náttúrufræðistofnunar og skrifa um þessa sem verpa hér að staðaldri. Við þá tölu bætti ég að vísu fuglum sem verpa hér mjög líklega ekki lengur; haftyrðli, sem verpti síðast í Grímsey skömmu fyrir 2000 og gæti reyndar gert einhvers staðar ennþá, keldusvíni, sem almennt er talið að minkur hafi útrýmt, og snæuglu, en tvö eða þrjú hreiður hennar finnast árlega hér á landi. Svo fjalla ég líka um hið séríslenska fyrirbæri, hverafugla.“

Sigurður segi að með aukinni skógrækt og hlýnandi veðri fjölgi tegundum sem hér staldra við. „Hér hafa 110 tegundir reynt varp að því talið er og ekki er ólíklegt að einhverjar þeirra bætist á þennan opinbera lista innan fárra ára, til dæmis dvergmáfur, eyrugla, fjallkjói, fjöruspói, gráþröstur og skógarsnípa.“

Hrafninn fyrirferðarmestur

Sigurður leggur áherslu á fugla og þjóðtrú í bókinni, eins og nafnið ber með sér. „Ég reyndi að finna allt sem ég gat um fugla í þjóðtrúnni, bæði hér heima og erlendis. Þjóðtrúin er undirstaða bókarinnar en í rammagreinum eru ljóð og ýmislegt annað fallegt sem skrifað hefur verið um fuglana, þannig að menningarsagan er svolítið undir líka.“

Fjöldi mynda er í bókinni, bæði ljósmyndir – sem Sigurður tók margar sjálfur – og teikningar eftir íslenska og erlenda listamenn, auk útbreiðslukorta hverrar tegundar fyrir sig.

Þegar spurt er hvað standi upp úr varðandi fugla og þjóðtrú er Sigurður snöggur til svars: „Hrafninn er lang fyrirferðarmestur. Ef hrafninn, til að mynda kom úr þessari áttinni eða hinni, eða sat þarna og gargaði svona eða hinsvegin, merkti það allt eitthvað sérsakt – og gerir enn í hugum margra, jafnt hér sem erlendis.

Helsingi er hins vegar skemmtilegasta fyrirbærið. Menn skildu lengi vel ekkert í honum; töldu hann ekki verpa eins og aðrir fuglar, hvað þá að hann lægi á eggjum enda kom hann fullskapaður á vetrarstöðvarnar og aldri fundust hreiður á vorin. Þetta þótti mikil ráðgáta.“

Skýringin var reyndar sú að helsingi verpti á Grænlandi en staldraði við á Íslandi áður en hann hélt til vetursetu á Bretlandseyjum. Fyrir um það bil einni öld hóf helsingi að verpa hérlendis, á Breiðafjarðareyjum, og nú er stór varpstofn í Skaftafellssýslu. Þjóðtrúin honum tengd er afar skemmtileg en ekki rétt að ljóstra of miklu upp um hana hér!

Með útkomu þessarar nýju bókar rætist gamall draumur Sigurðar. „Þegar ég gaf út fuglabókina 1996 var ein opna undir hverja tegund. Hverjum kafla lauk með frásögn af þjóðtrú en stundum var lítið pláss fyrir hana því svo mörgu öðru þurfti að koma að. Þjóðtrúarþátturinn varð því dálítið útundan og strax þá kviknaði sú hugmynd að ég yrði að koma með aðra bók. Ég hélt því áfram að sanka að mér efni og hef gert allan þennan tíma. Með útkomu bókarinnar nú er því 25 ára gamall draumur að rætast.“

  • Jón Norðmann segir frá því í Grímseyjarlýsingu sinni, frá miðbiki 19. aldar, en hann var prestur þar úti á árunum 1846–1849, að „fágætasta tilbreyting langvíunnar“ sé með „gulrautt“ nef og fætur. Jón kallar hann „langvíukong“. Hann sé m.a. að finna „norður í eyjarfætinum“ og einn hafi náðst vorið 1848 „í bjarginu, sem Baðstofa heitir; ungi hans hafði hvítt nef og hvíta fætur. Annar veiddist um 1830 þar í bjarginu, sem heitir Flá í Langhól.“ Í neðanmálsgrein bætir hann við: „Langvíukongurinn má vera að ei sé nema leikur náttúrunnar og sé í rauninni langnefja, þó er hann mjög styggur og æsir til flugs með sér allan fugl í kringum sig.“ Þriðji fuglinn, sem passar nákvæmlega við þessa lýsingu, náðist í grásleppunet frá Tjaldi RE 32 undir Stigahlíð 11. maí 1992, nánar tiltekið í Krossavík utan Hvassaleitis. Bolvíkingurinn Hallgrímur Guðfinnsson kom honum til bókarhöfundar, sem sendi hann til Náttúrufræðistofnunar Íslands og er hamurinn varðveittur þar.
  • Séra Sigurður Ægisson með bókina sína góðu - Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin.

  • Kross yfir eldhússtrompi. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sögðu á 18. öld um músarrindilinn: „Hann sækist mjög eftir hangiketi. Flýgur hann inn um eldhússtrompana og heldur sig þar í sóti og reyk. Mest sækir hann í kindaketið og grefur sig inn í ketið, þar sem holdið er þykkast og gerir sér þar holur. Þegar bændurnir verða þess varir, setja þeir grind í strompinn, sem músarrindillinn þorir ekki gegnum. Aðrir telja hann eins konar óheillafugl og setja því trékross á strompinn, því að þeir trúa að hann þori ekki fram hjá krossinum.“ Pennateikning eftir listakonuna Auði Ómarsdóttur.
  • Dílaskarfurinn hefur löngum þótt vera æði dulúðugur fugl. Dúkrista eftir ensku listakonuna Pip Greeves.