Fara í efni
Íþróttir

Íslandsbikarinn áfram í Laugardalnum

SR-ingar fagna öðrum Íslandsmeistaratitlinum í röð þegar lokaflautið gall í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Lið Skautafélags Reykjavíkur varð í kvöld Íslandsmeistari annað árið í röð, að viðstöddu fjölmenni, eftir eins marks sigur á SA Víkingum í oddaleik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri. Lokatölur urðu 2-3 SR í vil.

Kári Arnarsson kom SR yfir snemma leiks, en Arnar Helgi Kristjánsson jafnaði. Baltasar Hjálmarsson kom SA í forystu þegar innan við tvær mínútur voru eftir af öðrum leikhluta, en Petr Stepanek svaraði fyrir gestina 40 sekúndum síðar. Þriðja mark SR kom svo þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru eftir, þegar þeir nýttu sér að vera einum fleiri og Filip Krzak skoraði þriðja mark SR. Þrátt fyrir ákafar tilraunir SA Víkinga tókst þeim ekki að jafna leikinn og Skautafélag Reykjavíkur því Íslandsmeistarar annað árið í röð. 

Þetta er aðeins í annað skiptið sem báðir Íslandsbikararnir vinnast af sunnanliðunum á sama keppnistímabili. Það gerðist fyrst árið 2006 þegar SR vann í karlaflokki og Björninn í kvennaflokki, raunar eins og núna nema hvað Björninn sameinaðist Fjölni og kvennalið Fjölnis vann titilinn í ár. 

Nánar á eftir.