Íshokkí: SA-konur hefja leik í dag

Keppni í Toppdeild kvenna á Íslandsmótinu í íshokkí er að hefjast og áhugaverðar sviptingar í leikmannamálum liðanna á lokadögunum fyrir mót. Kvennalið SA hefur leik í dag, sækir Íslandsmeistara Fjölnis heim í Egilshöllina. Leikur liðanna hefst kl. 16:45.
Lið SA og Fjölnis börðust um Íslandsmeistaratitilinn síðastliðið vor og höfðu Fjölniskonur betur. Lið SA hefur haft á að skipa mjög ungum og efnilegum íshokkíkonum sem komið hafa upp úr yngriflokkastarfi félagsins, auk nokkurra eldri með mjög mikla reynslu.
Margar sterkar íshokkíkonur hafa haldið suður yfir heiðar á undanförnum árum og verið lykilmenn hjá Reykjavíkurliðunum, og sumar út fyrir landsteinana einnig, en nú hefur SA endurheimt eina þeirra þar sem Kolbrún María Garðarsdóttir snýr nú aftur norður eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitla með Fjölni. Fjölnir hefur að auki misst tvær af þessum akureyrsku hokkíkonum yfir í SR þar sem þær Berglind Rós Leifsdóttir og Teresa Snorradóttir hafa fært sig niður í Laugardalinn. Þá er hin kanadíska Shawlee Gaudreault einnig mætt aftur í markið hjá SA.
Það verður spennandi að sjá hvernig SA-liðinu gengur í vetur með þeim liðsstyrk sem félagið fær í Kolbrúnu, auk þess sem hinar yngri í liðinu eru auðvitað ári eldri og bæta stöðugt í reynslubankann.
Munar 31 ári á elstu og yngstu
Á vef SA er birtur leikmannalisti með alls 26 hokkíkonum. Þar má sjá að nær 31 árs aldursmunur er á yngstu og elstu konu liðsins. Jónína Margrét Guðbjartsdóttir er sú elsta í liðinu, fædd í febrúar 1981, og Guðrún Ásta Valentine sú yngsta, fædd í janúar 2012. Guðrún Ásta hefur nú þegar spilað fjóra leiki í meistaraflokki og skorað eitt mark. Mæðgurnar Jónína og Freyja Rán fara nú inn í sitt annað tímabil saman í meistaraflokki, en Freyja Rán er tæplega 16 ára og á nú þegar að baki 14 leiki með meistaraflokksliði SA.
Í yfirferð á vef SA kemur fram að Jónína hafi spilað 139 meistaraflokksleiki og sé með 122 stig, en það segir þó ekki næstum alla söguna því tölfræðin nær aðeins aftur til ársins 2010 og vantar alla leiki og stig fyrir þann tíma. Engu að síður ljóst að Jónína er sú reynslumesta í liðinu. Silvía Rán Björgvinsdóttir er hins vegar sú stigahæsta með 376 stig í 130 leikjum og Kolbrún María sem nú snýr aftur norður er með 204 stig í 105 leikjum.
Kanadíski þjálfarinn Sheldon Reasbeck heldur áfram með SA-liðið og er nú á sínu öðru ári. Í umfjöllun á vef SA segir meðal annars um þjálfarann og liðið að hann leggi mikla áherslu á liðsheild og segi hópinn í dag vera heildstæðari en áður og að styrkingin styðji vel við þann grunn sem var til staðar.
„Ég hef miklar væntingar til þessa hóps. Markmiðið er að liðið nái að smella saman sem ein heild og að við vinnum sem eitt lið“ segir Sheldon á vef SA.