Fara í efni
Íþróttir

Íshokkí: Kristín Hólm til kvennalandsliðanna

Kristín Hólm Geirsdóttir hefur getið sér gott orð og vakið mikla athygli sem styrktar- og frammistöðuþjálfari í Svíþjóð. Hún mun nú einnig vinna með kvennalandsliðunumí íshokkí.

Akureyringurinn Kristín Hólm Geirsdóttir, sem getið hefur sér gott orð og vakið mikla athygli í Svíþjóð á undanförnum árum sem styrktarþjálfari, hefur verið ráðin af Íshokkísambandi Íslands sem styrktarþjálfari kvennalandsliða Íslands í íshokkí. Frá þessu er sagt á vef Íshokkísambandsins.

Kristín starfar í dag fyrir sænska knattspyrnusambandið sem frammistöðuþjálfari (performance manager) hjá A-landsliði kvenna, sem er eitt af sterkustu kvennalandsliðum heims. Kristín er búsett í Stokkhólmi og verður starf hennar fyrir Íshokkísambandið því fyrst og fremst fjarþjálfun, en hún mun jafnframt ná að hitta æfingahópa kvennalandsliðanna þegar hún verður hér á landi í desember.

„Þetta eru frábærar fréttir og mikill fengur fyrir það uppbyggingarstarf sem verið hefur í gangi með kvennalandsliðin okkar síðustu ár,“ segir Jón Benedikt Gíslason aðalþjálfari A-landsliðs kvenna á vef ÍHÍ.

Kristín hefur áður unnið fyrir kvennalandsliðið, en hún hélt fyrirlestur fyrir landsliðið á milli jóla og nýárs 2024, sem mikil ánægja var með að því er fram kemur í frétt ÍHÍ. Þar fjallaði hún um það hvað landsliðskonurnar sjálfar gætu gert til að styrkja sig enn frekar og flýta fyrir endurheimt.

Frábær árangur í Svíþjóð

Í frétt ÍHÍ er farið yfir þann frábæra árangur sem Kristín náði sem styrktarþjálfari kvennaliðs Kristianstad í knattspyrnu í Svíþjóð, þar sem Elísabet Gunnarsdóttir var þjálfari um árabil. Þar segir að árangur hennar með liðið hafi vakið mikla athygli og ekkert lið í Svíþjóð hafi náð öðrum eins árangri með fyrirbyggjandi úrræðum fyrir leikmenn. Þessi góði árangur hafi síðan orðið til þess að sænska knattspyrnusambandið hafi ráðið hana til starfa, fyrst sem sérstakan styrktarþjálfara fyrir U23 landslið kvenna og síðan ráðið hana í nýja stöðu frammistöðuþjálfara í vor.

Kristín er fædd 1992 og stundaði meðal annars knattspyrnu þegar hún var að alast upp á Akureyri, spilaði með yngri flokkum Þórs og 2. flokki Þórs/KA/Völsungs. Þá á hún að baki 17 meistaraflokksleiki með BÍ/Bolungarvík.

Kristín er Akureyringur, með Bs próf í Sport Coaching and Performance frá Waterford Institute of Technology á Írlandi og svo meistarapróf MSc frá University of Lincoln, í Bretlandi í Sport Science.