Fara í efni
Íþróttir

Íshokkí: Háspenna og hasar í sigri SA

Hasarinn í horninu eftir að Jóhann Már Leifsson var keyrður út í vegg og sá brotlegi fékk makleg málagjöld frá liðsfélaga Jóhanns. Myndin er skjáskot úr útsendingu SA TV frá leiknum.

Liðin sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla síðastliðið vor buðu áhorfendum upp á háspennu og hasar þegar þau mættust í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. SA hafði eins marks sigur eftir jafnan og spennandi leik, mikla baráttu og fullmikinn hasar þegar leið á þriðja leikhlutann. Lokatölur 6-5 og SA-menn áfram ósigraðir með fullt hús á toppnum eftir sex leiki. Pétur Elvar Sigurðsson skoraði þrennu fyrir SA.

Leikurinn fjörugur, skemmtilegur, jafn og spennandi frá upphafi til enda og munurinn aldrei meiri en eitt mark á annan hvorn bóginn þar til SA komst í 6-4 upp úr miðjum þriðja leikhluta. Heimamenn voru þó aðgangsharðari, að minnsta kosti komu þeir fleiri skotum á markið en gestirnir. SA átti 58 skot á mark, en SR 32.

SR-ingar voru á undan að skora í upphafi, SA-jafnaði og komst yfir, staðan 2-1 eftir fyrsta leikhluta. SR-ingar hófu annan leikhluta eins og þann fyrsta, skoruðu snemma og jöfnuðu í 2-2. Aftur komst SA yfir, en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum og leiddu með einu marki fyrir lokaþriðjunginn.

Næstu þrjú mörk voru hins vegar heimamanna og munurinn í fyrsta skipti tvö mörk þegar tæpar átta mínútur voru eftir. Skömmu áður hljóp mikill hiti í leikinn og hlaut einn leikmaður úr hvoru liði útilokun. Leikmaður SA var keyrður út í rammann, lá vankaður eftir og SR-ingurinn sem braut á honum fékk að finna fyrir því frá liðsfélaga þess meidda ásamt því að fleiri tóku þátt í átökunum. Það tók dómarana dágóða stund að ná mönnum niður og að ákveða dóma í framhaldinu.

Skömmu eftir að leikur hófst að nýju náðu SA-menn tveggja marka forystu þegar Pétur Elvar Sigurðsson skoraði sitt þriðja mark. SR-ingar brugðu á það ráð að skipta út markmanni sínum á lokamínútunum og uppskáru mark, minnkuðu muninn í eitt mark, en náðu ekki inn öðru þrátt fyrir ákafar tilraunir.

Úrslit leiks: SA-SR 6-5 (2-1, 1-3, 3-1)

 • 0-1 - Kári Arnarsson (02:29). Stoðsending: Styrmir Maack, Petr Stepanek
 • 1-1 - Róbert Máni Hafberg (08:43). Stoðsending: Atli Sveinsson, Andri Freyr Sverrisson.
 • 2-1 - Pétur Elvar Sigurðsson (18:44). Stoðsending: Uni Steinn Sigurðarson Blöndal, Matthías Már Stefánsson.
 • 2-2 - Sölvi Atlason (21:31). Stoðsending: Markús Ólafarson, Petr Stepanek.
 • 3-2 - Pétur Elvar Sigurðsson (24:51). Stoðsending: Uni Steinn Sigurðarson Blöndal, Atli Sveinsson.
 • 3-3 - Petr Stepanek (26:02). Stoðsending: Kári Arnarsson, Filip Krzak.
 • 3-4 - Gunnlaugur Þorsteinsson (36:04). Stoðsending: Sölvi Atlason.
 • 4-4 - Róbert Máni Hafberg (41:42). Stoðsending: Andri Freyr Sverrisson, Unnar Hafberg Rúnarsson.
 • 5-4 - Jóhann Már Leifsson (44:47).
 • 6-4 - Pétur Elvar Sigurðsson (52-11).
 • 6-5 - Kári Arnarsson (57:33). Stoðsending: Petr Stepanek, Filip Krzak.

SA
Mörk/stoðsendingar: Pétur Elvar Sigurðsson 3/0, Róbert Máni Hafberg 2/0, Jóhann Már Leifsson 1/0, Atli Sveinsson 0/2, Uni Steinn Sigurðarson Blöndal 0/2, Andri Freyr Sverrisson 0/2, Matthías Már Stefánsson 0/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/1.
Varin skot: 27 (84,38%).
Refsingar: 37 mínútur.

SR
Mörk/stoðsendingar: Kári Arnarsson 2/1, Petr Stepanek 1/3, Sölvi Atlason 1/1, Gunnlaugur Þorsteinsson 1/0, Styrmir Maack 0/1, Markús Ólafarson 0/1, Filip Krzak 0/2.
Varin skot: 52 (89,66%).
Refsingar: 41 mínúta.

Leikskýrslan (ihi.is)

Upptöku frá leiknum má finna á YouTube-rás SA TV.