Fara í efni
Íþróttir

Í æfingabúðir hjá þýska U15 landsliðinu

Emma Karólína Snæbjarnardóttir, kornungur leikmaður Þórs í körfubolta, er á leið í æfingabúðir með þýska U15 landsliðinu. Hér er hún í leik í 1. deildinni gegn Stjörnunni í vetur. Myndir: Páll Jóhannesson - thorsport.is.

Emma Karólína Snæbjarnardóttir, leikmaður Þórs í körfubolta, mun æfa með U15 landsliði Þýskalands í fimm daga í lok maí. 

Emma er kornung og ein af efnilegustu körfuknattleikskonum landsins. Hún er fædd 17. maí 2008 og á því 15 ára afmæli í dag. Eftir rúma viku flýgur hún til Þýskalands og heldur til Heidelberg þar sem þýska körfuknattleikssambandið verður með æfingabúðir. Þar verða samankomnar nokkrar bestu körfuboltastelpur frá hverju fylki Þýskalands, samtals 32 stelpur, og Emma Karólína frá Akureyri verður sú 33ja.

Æfir í heimabæ móður sinnar

Móðir Emmu Karólínu, Nicole Kristjánsson, er þýsk og Emma því með tvöfalt ríkisfang og lögleg með U15 landsliðum beggja landa. Á hennar aldri er meira að segja löglegt að leika fyrir bæði löndin, en ef vel gengur í Þýskalandi núna gæti stór ákvörðun beðið Emmu á næsta ári. Ef hún nær ekki lengra með þeim þýsku þá er það bara þannig, skemmtilegt ævintýri í fimm daga og engin ástæða til að sleppa því.

Svo skemmtilega vill til að Nicole, móðir Emmu, er frá Heidelberg þar sem æfingabúðirnar verða haldnar og faðir hennar, afi Emmu, á þar heima. Þýskalandsferð Emmu sem hefst þann 25. maí er núna „krúttlegt ævintýri“ eins og mamma hennar orðar það, en það gæti breyst í eitthvað stærra. Ævintýrið gæti líka tekið enda og þá verður það bara þannig. Ævintýrin eru til að upplifa þau, ekki sleppa þeim.

Gaman að hún fái athygli

Emma er ein af efnilegustu körfuboltastelpum hér á landi. Hún spilaði í vetur sitt fyrsta tímabil í meistaraflokki, kom oft inn á í leikjum Þórs í 1. deildinni og lét til sín taka. Þórsliðið ávann sér sæti í Subway-deildinni á næsta tímabili og verður spennandi að sjá Emmu þroskast og fá að reyna sig þar.

Þrátt fyrir hæfileika og getu mátti hún ekki spila með meistaraflokki Þórs tímabilið 2021-22, var of ung samkvæmt reglum KKÍ. Daníel Andri Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Þórs, er ánægður með að Emma skuli fá þetta tækifæri. „Hún er bara gríðarlega efnilegur leikmaður og gaman að hún sé að fá svona athygli út um allt,“ segir Daníel Andri.

Of ung í fyrra, en meðal hittnustu í vetur

Emma á að baki 32 leiki með meistaraflokki, alla á nýafstöðnu tímabili. Hún mátti ekki spila með meistaraflokki tímabilið 2021-22, var of ung samkvæmt reglum KKÍ. Emma kom vel inn í leik Þórsliðsins í vetur. Hún skoraði 5,7 stig að meðaltali í leik á nýafstöðnu tímabili, tók 3,7 fráköst, átti 1,3 stoðsendingar og í heildina með 7,1 framlagspunkt að meðaltali í leik. Tvisvar á tímabilinu skoraði hún yfir 20 stig í leik, fyrst 25 stig í sigri á móti Aþenu/Leikni/UMFK og 22 stig í sigri gegn Breiðabliki B. Hún spilaði einnig með ungmennaflokki Þórs í vetur og var lykilmaður í því liði.

Það verður spennandi að sjá hvernig henni mun ganga í Þýskalandi og ekki síður í Subway-deildinni næsta vetur.


Emma Karólína á fleygiferð í sigurleik gegn Stjörnunni í janúar. Mynd: Páll Jóhannesson - thorsport.is

Þegar tölfræðiþættir leiktíðarinnar eru skoðaðir sést meðal annars að hittni hennar úr tveggja stiga skotum var með því besta sem gerðist í deildinni og eru þá erlendu leikmenn liðanna taldir með. Emma varð á meðal efstu leikmanna 1. deildarinnar í vetur í skotnýtingu úr tveggja stiga skotum og vítaskotum. Nýtingin var 56,53% úr tveggja stiga skotum og þar var hún í 3. sæti yfir alla deildina og 67,35% nýtingu vítaskota og í 7. sæti yfir deildina. Þegar listinn er hins vegar skoðaður kemur hún ekki þar upp þar sem hann miðast við ákveðinn lágmarksfjölda skota.

Hafði samband við þjálfarann

Móðir Emmu, Nicole Kristjánsson, hafði sjálf frumkvæði að því að Emma fengi að reyna sig með þýska U15 landsliðinu. Hún hafði samband við þýska körfuknattleikssambandið, sagðist eiga dóttur sem væri með tvöfalt ríkisfang, komin í íslenska U15 landsliðshópinn og spurði bara beint út hvort landar hennar í Þýskalandi hefðu áhuga á að fá hana í æfingabúðir eða eitthvað slíkt. Svarið var að þessum upplýsingum yrði komið áfram til þjálfarans. Síðan leið og beið og Nicole hugsaði með sér að mögulega væri þetta ekkert og þá væri það bara þannig. Hún ákvað samt að minna á sig af því að hún hafði ekki heyrt neitt frá þjálfaranum. Hún sendi skilaboð og fékk viðbrögð.

„Daginn eftir svaraði hann mér. Ég var aðeins búin að skoða þetta og vissi af æfingabúðum í Heidelberg sem yfirleitt eru í október. Ég er fædd í Heidelberg og pabbi minn býr í Heidelberg og ég á fullt af vinkonum og ættingjum þar. Svo fáum við svar, og hann segir: Jú, ef hana langar til þá má hún mæta í æfingabúðir núna í lok maí,“ segir Nicole. Hún sendi þjálfaranum símanúmerið sitt því hana langaði til að spjalla betur við þjálfarann og fá ítarlegri og nákvæmari upplýsingar, en svo tók aftur við bið.

Heimastúlkurnar njóta styrkja frá sínum svæðum

Á endanum var þetta svo allt frágengið, foreldrarnir fengu allar upplýsingar um dvölina og fyrirkomulagið en svo var þeim bent á að greiða þyrfti kostnað vegna þátttöku í æfingabúðunum. Flugið út þurftu þau að sjálfsögðu að greiða og til viðbótar aðeins um 35 þúsund krónur fyrir fullt fæði, gistingu og þátttöku í æfingabúðunum, með fullu utanumhaldi þar sem vel er hugsað um stelpurnar allan sólarhringinn á meðan þær eru í æfingabúðunum. Hinar 32 stelpurnar í æfingabúðunum hafa verið valdar sem fulltrúar síns fylkis innan Þýskalands og njóta þar af leiðandi styrkja frá sínum heimasvæðum.

Emma Karólína er semsagt á leið til Heidelberg í Þýskalandi eftir nokkra daga til að taka þátt í æfingabúðum U15 landsliðsins í körfuknattleik, en þær verða haldnar í Ólympíuþjálfunarmiðstöð í borginni, þar sem fólk úr mismunandi íþróttagreinum hittist. 

Verkefni þjálfarans er stundum að geyma hálsmen leikmanna. Daníel Andri Halldórsson er þjálfari Emmu Karólínu í kvennaliði Þórs. Hann er ánægður með að hún skuli fá þetta tækifæri, að æfa með U15 landsliði Þýskalands. „Hún er bara gríðarlega efnilegur leikmaður og gaman að hún sé að fá svona athygli út um allt,“ segir Daníel Andri. Mynd: Haraldur Ingólfsson