Fara í efni
Menning

Hvörf Þorsteins Kára plata vikunnar á Rás 2

Þorsteinn Kári. Mynd: MBS

Platan Hvörf með Þorsteini Kára, tónlistarmanni úr Djúpadal í Eyjafirði, sem kom út 9. júní hjá sjálfstæðu tónlistarútgáfunni og listakollektífinu MBS er plata vikunnar á Rás 2. Hvörf er djúpt og persónulegt verk sem fjallar um umbreytingar í lífi listamannsins, segir í fréttatilkynningu frá MBS. Platan Hvörf varð til á erfiðum tímamótum í lífi Þorsteins Kára, þegar eiginkona hans greindist með krabbamein árið 2022. Upphaflega var ætlunin bara að semja nokkur lög, en útkoman er heil breiðskífa sem spannar um klukkustund í spilun.

Platan samanstendur af ellefu lögum með fjölbreyttum tónlistarblæbrigðum þar sem greina má rokk, raftónlist og indí með sterkri áherslu á hljóðgervla. Verkið má líta á sem eins konar dagbókarbrot þar sem innri heimur Þorsteins Kára birtist í tónlistinni, segir ennfremur í fréttatilkynningu MBS.

Um sköpunarferlið

Sköpunin reyndist Þorsteini Kára mikilvæg leið til að vinna úr aðstæðum og viðhalda andlegu jafnvægi á þessum krefjandi tíma. Lögin urðu til undir mismunandi kringumstæðum, sum hver einstaklega óhefðbundnar – líkt og lagið Valkyrja, sem hann samdi á sjúkrahóteli. 

Þorsteinn Kári er fjölhæfur hljóðfæraleikari og tók upp bróðurpart hljóðfæraleiksins á plötunni sjálfur. Trommurnar voru teknar upp í Berlín þar sem Jón Haukur Unnarsson og Nirmalya Banerjee unnu að rytmískum grunni verksins. Með Þorsteini koma fram á plötunni: Ingi Jóhann Friðjónsson á bassa, Jón Haukur Unnarsson á trommur og slagverk, Auður Eva Jónsdóttir á selló, Wolfgang Frosti Sahr á saxófón og Egill Örn Eiríksson á gítar.

 

Hvörf kemur út á vínyl á næstu vikum. Plötukápuna hannaði Þórður Indriði Björnsson.

Hefur sett svip sinn á norðlenska tónlistarsenu

Þorsteinn Kári hefur verið virkur í tónlistarsenu Norðurlands í nær tvo áratugi og er stofnmeðlimur listakollektífsins og útgáfufélagsins MBS, Mannfólkið breytist í slím. Þar hefur hann gefið út fimm plötur – tvær undir eigin nafni, tvær sem hluti af Brák og eina með sveitinni Buxnaskjónum – auk þátttöku í fjölda annarra verkefna sem framleiðandi og hljóðfæraleikari. Þorsteinn hefur einnig unnið við hljóðvinnslu á 15 af alls 22 útgáfum MBS og er óaðskiljanlegur hluti samsteypunnar.

Platan er væntanleg á veglegum tvöföldum rauðum marmara vínyl sem kemur til landsins á næstu vikum. Útgáfan er pressuð af RPM Records í Danmörku og plötukápuna hannaði Þórður Indriði Björnsson. Hvörf með Þorsteini Kára er 22. útgáfa listakollektífsins og útgáfufélagsins MBS Skífur.


Hlekkur á plötuna á Spotify

Vínylútgáfu Hvörf má formpanta í vefverslun MBS