Fara í efni
Fréttir

Hvað merkir að vera „svæðisborg“?

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Megintillaga starfshóps, sem ráðherra sveitarstjórnarmála fól að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni, er að Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, verði flokkuð í byggðastefnu stjórnvalda sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu.

Akureyri.net greindi frá þessu fyrr en í dag og starfshópurinn afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra, skýrsluna undir kvöld. Ráðherra skipaði starfshópinn haustið 2020.

En hvað merkir að vera svæðisborg?

Í skýrslunni segir að starfshópurinn leggi til að Akureyri verði sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái bæði aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Nýtt byggðastig muni, auk hefðbundinna hlutverka stærri þéttbýliskjarna, bjóða upp á ýmsa þjónustu, mannlíf og menningu sem skarast við hlutverk höfuðborgarinnar.

Níu áhersluatriði kynnt í skýrslunni

Til stuðnings við aðaltillögu sína um svæðisbundið hlutverk Akureyrar dregur starfshópurinn fram áhersluatriði í níu liðum á sviði heilbrigðismála, félagsþjónustu, menningar, menntunar, norðurslóða, raforku, samgöngumála, stjórnsýslu og öryggismála.

Samgöngumál  Reglulegt millilandaflug fari í fastan farveg sem fyrst, stjórnvöld tryggi áframhaldandi uppbyggingu og að framlög séu næg til að tryggja aðra flugtengingu inn í landið.

Raforka  Ágreiningur um flutningsleiðir sem tryggja afhendingaröryggi verði leystur.

Menning  Að formfest verði með lögum, að hlutur Akureyrar í heildar framlögum til menningarmála sé í einhverju samræmi við áhrifasvæði svæðisborgarinnar og mikilvægi hennar þannig virt í verki. Þetta gæti t.a.m. falist í tvöföldun á framlögum til Menningarfélags Akureyrar.

Norðurslóðir  Skilgreind verði þau verkefni og það fjármagn sem fylgja þeirri viðurkenningu stjórnvalda að Akureyri sé miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Háskólinn á Akureyri og stofnanir innan málaflokksins á háskólasvæðinu efli samvinnu og sýnileika.

Stjórnsýsla  Stjórnsýsla ríkisins verði efld á Akureyrarsvæðinu og skoðað verði að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins þar, samhliða því að haldið verði áfram á þeirri braut að skapa störf sem eru óháð staðsetningu.

Menntun  Háskólanum á Akureyri og framhaldsskólum á svæðinu sé tryggt nauðsynlegt fjármagn til rekstrar og aukins fjölbreytileika í námsframboði.

Heilbrigðismál  Sjúkrahúsið á Akureyri verði gert að háskólasjúkrahúsi.

Félagsþjónusta  Aukið verði samstarf milli Akureyrar og annarra sveitarfélaga og unnið að víðtækari útfærslu á notkun velferðartækni á áhrifasvæði svæðisborgar.

Öryggismál  Að starfsemi lögreglu (sérsveitar) verði efld samhliða vaxandi borgarsamfélagi og hafinn undirbúningur að byggingu eða opnun fangelsis að nýju.

Góð úttekt – vel mótaðar tillögur

„Ég þakka starfshópnum fyrir góða fræðilega úttekt og vel mótaðar tillögur. Skýrslan er mikilvægt framlag í umræðu og aðgerðir til að efla byggðarlög og búsetu um allt land. Akureyri er höfuðból Norðurlands og gegnir þýðingarmiklu hlutverki á sínu svæði og fyrir landið allt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra, eftir að hann fékk skýrsluna afhenta.

„Ég hef í ráðherratíð minni haft þá sýn að styðja rækilega við byggðir um allt land með því að auka atvinnutækifæri og tækifæri til menntunar hringinn í kringum landið í náinni samvinnu við heimafólk. Við höfum gert þetta með fjölbreyttum fjárfestingum í gegnum öfluga byggðaáætlun en stigum einnig stórt skref á kjörtímabilinu við að efla sveitarstjórnarstigið með markvissri langtímastefnu. Við munum taka þessar tillögur starfshópsins til gaumgæfilegrar skoðunar,“ sagði Sigurður Ingi.

Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net í dag.

Smellið hér til að sjá skýrslu starfshópsins.

  • MYNDIN - Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra, og Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri og formaður starfshópsins.