Fara í efni
Mannlíf

Húsbygging, nám og vinna á Tenerife

Davíð og Eva Ósk ásamt dætrunum Alísi Lilju, Elísabetu og Agnesi Ingu. Fjölskyldan flutti til Tenerife frá Akureyri í ágúst og ætlar að búa ytra í tvö ár.

Davíð Kristinsson og eiginkona hans Eva Ósk Elíasardóttir eru líklega fyrstu Íslendingarnir til þess að byggja eigið hús á sólskins eyjunni Tenerife. Um er að ræða 500 fm einbýli þar sem verður í heildina svefnpláss fyrir 20 manns og glæsilegt 600 fm útisvæði.

„Það er nóg af stórum „villum“ til útleigu á Tenerife en flestar þeirra eru aðeins með þremur til fjórum svefnherbergjum. Það er því klárlega þörf fyrir leiguhúsnæði þar sem stórfjölskyldan getur dvalið saman eða vinahópar,“ segir Davíð sem sér fyrir að leigja húsið út til ferðamanna að framkvæmdum loknum. Formlegt byggingarleyfi kemur í desember en bráðabirgðarleyfi er á leið í hús svo Davíð er í startholunum við að hefja minni framkvæmdir innandyra. „Ég er kominn með ljósavél svo það er hægt að hræra steypuna þó rafmagnið sé ekki komið.“

Það er þægilegt hitastig á Tenerife allan ársins hring. Fjölskyldan kann vel við mannlífið, matinn og umhverfið á eyjunni. Þessi mynd er úr garðinum við fjölskylduíbúðina sem þau leigja til ferðamanna.

Í fjarvinnu frá Tene

Davíð og Eva Ósk voru búsett á Akureyri áður en þau fluttu út þar sem þau hafa mestmegnis verið í ýmsum sjálfstæðum rekstri. Í dag reka þau fjögur fyrirtæki. Þrjú þeirra eru á Íslandi, rafverktakafyrirtækið RafAk ehf, byggingarfyrirtækið Töggur ehf og fasteignafélagið DK Fasteignir ehf. Þá eru þau með eitt fyrirtæki á Tenerife sem heldur utan um útleigu á þeirra eignum í gegnum heimasíðuna gistingtene.is (sjá einnig Fjölskylduíbúð á Tenerife á Facebook). Hjónin eiga þrjár dætur; Alísi Lilju 14 ára , Elísabetu 11 ára og Agnesi Ingu 7 ára. Undanfarin ár hefur fjölskyldan margoft heimsótt Tenerife og árið 2020 keyptu þau sér raðhús á Costa Adeje sem þau leigja út til ferðamanna. Í ágúst síðastliðnum tóku þau svo langþráð skref og fluttu alfarið til Tenerife í tvö ár. „Eftir þessi tvö ár tökum við svo stöðuna aftur. Við ætlum bara að sjá hvernig þetta þróast, hvernig gengur hjá stelpunum í skólanum og svo framvegis. Ef allir eru sáttir þá erum við ekkert endilega að koma aftur til Íslands,“ segir Davíð.

Hjónin Davíð og Eva eru að öllum líkindum fyrstu Íslendingarnir sem fara út í byggingarframkvæmdir á Tenerife en þau festu kaup á 1000 fm lóð þar til stendur að reisa 500 fm hús. Húsið mun fara í útleigu í framtíðinni til ferðamanna en þar verður svefnpláss fyrir allt að 20 manns.

Keyptu 1000 fm lóð

Húsið sem hjónin eru að fara í framkvæmdir á er staðsett á suðurhluta eyjunnar í bænum Guía de Isora sem er í 540 m hæð yfir sjávarmáli. Að sögn Davíðs er um að ræða fallegan og rólegan bæ í 12 mínútna akstursfjarðlægð frá Costa Adeje. Bærinn hafi unnið meira og meira á en í miðbænum er að finna mikil menningarverðmæti í gömlum húsum sem eru dæmigerð fyrir kanaríska byggingarlist. „Þarna er bara lókallinn og lókal veitingastaðir, og mikið af földum perlum,“ segir Davíð. Í göngufjarðlægð frá miðbænum festu þau hjónin kaup á lóð sem er 1000 fm að stærð. Þar var búið að reisa útveggi á tveggja hæða 300 fm byggingu sem þau munu klára að byggja og bæta svo við hana 200 fm. Davíð segir að þegar þau hófu kaupferlið þá hafi þessi bygging ekki verið samþykkt og lóðin verið hluti af stærri lóð. Það var því töluverð skriffinnska að fá lóðamálin á hreint og bygginguna samþykkta. Hann segir að þetta sé ekki óalgengt á Tenerife, að kaupa lóð eða eldra hús sé mun flóknara en fólk gerir sér grein fyrir. Þau hafi sem betur fer haft gott fólk í kringum sig, arkitekta, lögfræðinga og aðra heimamenn til að ýta sér áfram en sem dæmi þá tók það rúma 5 mánuði frá því að þau ákváðu að kaupa lóðina þar til hægt var að skrifa undir kaupsamning.

Davíð starfaði lengi við heilsuþjálfun á Íslandi en hefur nú fært sig í aðra átt. Sjálfur sinnir hann eigin heilsu með hjólreiðum en á Tenerife eru frábærar hjólaleiðir að hans sögn.

Ávaxtatré, útieldhús og líkamsræktarsalur

Fyrsta skrefið í framkvæmdunum er að gera húsið sem stendur á lóðinni íbúðarhæft en fjölskyldan hyggst flytja þangað inn sem fyrst og taka svo næsta skref í framkvæmdunum sem er viðbyggingin og útisvæðið. Davíð segir að þau hyggist reisa tvöfaldan bílskúr, sundlaug, líkamsræktarsal og á 300 fm þaksvölum verði útieldhús með vínkæli, grilli og stórum sjónvarpsskjá svo fátt eitt sé nefnt. Þá verður húsið með níu svefnherbergjum, þar af tveimur stórum fjölskylduherbergjum. Eins sjá þau fyrir sér að gróðursetja alls konar ávaxtatré á lóðinni. Verkefnið er spennandi en það innifelur m.a. í sér ýmsar lausnir varðandi orkunýtingu á heitari slóðum. „Við sjáum fyrir okkur að vera með sólarpanel og selja orku inn á almenna kerfið en spænsk stjórnvöld niðurgreiða sólarpanela fyrir þá sem framleiða inn á kerfið. Þá langar mig til þess að leggja snjóbræðslurör í þaksvalirnar og láta sólina hita vatn í sundlaugina. Svo eigum við aðra lóð við hliðina sem við erum ekki alveg búin að ákveða hvort við byggjum sjálf á eða seljum,“ segir Davíð sem greinilega verður ekki verkefnalaus næstu misserin.

Íslenskar kröfur á gistingunni

Daglega lífið er að komast í fastar skorður hjá fjölskyldunni úti. Þau leigja húsnæði í hverfinu Callao Salvaje og dæturnar stunda nám í alþjóðlegum skóla, Costa Adeje Collegio. Eftir eitt ár er planið að þær fari í hefðbundinn spænskan skóla. „Okkur fannst þetta góð lausn fyrir alla, bæði börn og foreldra því ekkert okkar talar spænsku. Þetta er mýkri byrjun heldur en að fara beint inn í almenna skólakerfið.“ Það er þó ekki gefið að stunda nám í þessum skóla en Davíð grínast með það að þau hafi selt fellihýsið og rafmagnsreiðhjól fjölskyldunnar á Íslandi til þess að eiga fyrir skólagjöldunum, sem er þó engin lygi. „Ætli við séum ekki eini rafvirkinn og innanhússhönnuðurinn sem erum með börn í þessum skóla, þetta eru allt saman einhverjir ríkir Rússar,“ segir Davíð en bætir við að stelpurnar séu að standa sig vel en auðvitað séu þessir fyrstu mánuðir erfiðir á meðan verið er að aðlagast.

Á lóðinni var búið að reisa útveggi á ósamþykktri 300 fm byggingu. Hjónin hafa staðið í því að fá bygginguna samþykkta og þurfa t.d. að rífa stigahús sem er of hátt. Við þessa útveggi kemur svo 200 fm viðbygging.

Á meðan dæturnar sinna náminu situr Davíð líka yfir námsbókum því hann stundar nám í Byggingarfræði BS.c - Construction Architect við Háskólann í Reykjavík en áður hafði hann lokið námi í rafiðnfræði.

„Okkur hjónum líður rosalega vel úti. Fólkið, maturinn og umhverfið, og þetta jafna hitastig, það fer vel í okkur. Fyrir svona ofvirkan einstakling eins og mig þá finn ég ákveðna ró þarna sem ég finn ekki á Íslandi. Þegar stelpurnar koma heim úr skólanum þá eigum við okkar tíma saman. Þegar ég var að vinna sem rafvirki á Íslandi þá var ég oftast að vinna til fimm eða sex og fór svo í aukavinnu og teikningar á kvöldin, þannig þetta er annar taktur hér,“ segir Davíð og heldur áfram. „Dagurinn hjá okkur byrjar á að skutla stelpunum í skólann. Svo förum við hjónin bara að vinna og sinna sjálfum okkur. Eva sér um bókhaldið fyrir fyrirtækin okkar, sem og bókanir og þrif fyrir fjölskylduíbúðina og er í samskiptum við gesti. Við leigjum eingöngu til Íslendinga og höfum verið að bjóða gistingu á íslenskan mælikvarða. Við erum með góð rúm, barnastóla, leikföng, upphitaða sundlaug, góðan aðbúnað í eldhúsi, grill o.fl. sem Íslendingar vilja hafa aðgang að þegar þeir eru í fríi. Við höfum sjálf leigt orlofsíbúðir hérna og aðbúnaðurinn er oft frekar fátæklegur. Svefnpláss kannski fyrir sex en bara borðbúnaður fyrir fjóra, þannig að íbúðin okkar hefur alveg slegið í gegn,“ segir Davíð.

Námið tekur sinn tíma úr deginum hjá honum en eins er hann að sinna verkefnum fyrir RafAk og Töggur en í báðum fyrirtækjum eru samtals 10 starfsmenn með þeim hjónum. Þegar Akureyri.net náði Davíð í spjall var hann einmitt staddur á Íslandi að sinna staðarlotu og vinnutengdum verkefnum. Aðspurður um það hvernig gangi að fjarstýra öllu frá Tenerife þá segir hann að það hafi gengið mjög vel hingað til. Fyrirtækin eru í nokkrum spennandi verkefnum, eru t.d. að ljúka vinnu við gagngerar endurbætur á Þórunnarstræti 114. Húsið var nánast gert fokhelt og allt endurnýjað en fjórar íbúðir eru nú í húsinu sem fara í sölu um næstu mánaðarmót.

Stelpurnar stunda nám í alþjóðlegum skóla og þar þurfa nemendur að mæta í skólabúningum.

Fékk nóg af heilsuþjálfuninni

Davíð og Eva ráku í mörg ár fyrirtækið Heilsuþjálfun ehf. á Akureyri og er Davíð menntaður næringar- og lífstílsþjálfari. Það er því við hæfi að spyrja hann út í þau mál, er hann ekkert að þjálfa lengur?

„Ég er alltaf með einhverja sem ég er að aðstoða en ég fékk eiginlega smá nóg af heilsuþjálfuninni og snéri mér að öðru. Það var orðið svolítið niðurdrepandi að aðstoða fólk við að ná góðum árangri. Svo fór viðkomandi í sumarfrí og missti allt niður svo þá var aftur byrjað frá grunni. Maður byggði eitthvað sem var jafnóðum rifið niður,“ segir Davíð. Sjálfur sinnir hann eigin heilsu m.a. með hjólreiðum og lyftingum, en hann hefur hjólað mikið á Tenerife og sér fyrir sér að hjólahópar og aðrir hópar með heilsutengd markmið geti leigt hús þeirra Evu í Guía de Isora fyrir æfingaferðir. Frá bænum liggja t.d. góðar hjólaleiðir upp í Teide þjóðgarðinn. „Það er gott að vera aðeins út úr aðal skarkalanum fyrir hópa, þá næst meiri samheldni. Eyjan er algjör hjólaparadís og mörg lið sem koma hingað í æfingaferðir. Ég hef því miður ekki enn náð að hjóla eins mikið sjálfur og ég vildi núna í haust vegna anna, það hefur verið svo mikið stúss í kringum flutningana og að koma okkur fyrir en ég sé veturinn framundan í hyllingum hvað þetta varðar.“

Fjögurra ára undirbúningur

Að lokum er við hæfi að spyrja Davíð út í það hvort hann lumi á góðum ráðum til þeirra sem eru í svipuðum hugleiðingum, þ.e.a.s. langi að prófa að búa á Tenerife og jafnvel kaupa sér eign þar eða byggja. Davíð segir að mikilvægt sé að heimsækja eyjuna og prófa jafnvel mismunandi svæði til að átta sig betur á hlutunum. Þau fjölskyldan hafi t.d. verið að undirbúa sinn flutning í rólegheitunum í fjögur ár og selt frá sér fyrirtæki og fasteignir til að fjárfesta á Tenerife. Þá segir hann tvennt ólíkt að vera á Tenerife í fríi og búa þar. Peningarnir séu t.d. fljótir að fljúga ef farið sé út að borða öll kvöld. „Þó verðlag sé hagstæðara hér á ýmsu þá þarf maður samt að vera meðvitaður um í hvað peningarnir fara, alveg eins og á Íslandi. Byggingarefni er mun ódýrara hér en heima, en verð á teikningum er svipað. Þá er hægt að fá ódýrara vinnuafl í suma vinnuna en annað er á svipuðu verði og heima. Allar leyfisveitingar og pappírsvinna tekur mjög langan tíma svo gott magn af þolinmæði er nauðsynleg. Þá er algjörlega nauðsynlegt að hafa gott fólk með sér sem leiðir mann í gegnum þetta.“

Árið 2020 keyptu hjónin rúmgóða raðhúsaíbúð á Costa Adeje sem þau leigja út til Íslendinga á ferðalagi í gegnum síðuna gistingtene.is. Þrjú svefnherbergi eru í íbúðinni.