Hríseyjarhvönnin á alþjóðlegan markað?

Í síðustu viku voru uppskerulok í hvannatínslu í Hrísey, en frá árinu 2004 hafa hjónin Bjarni Thorarensen og Sigríður Magnúsdóttir tínt þar ætihvönn sem nýtist til margvíslegrar heilsubótar. Bragi Þór Pétursson er sonur Sigríðar, en hann hefur haft yfirumsjón með starfseminni í sumar, vegna veikinda Bjarna. Blaðamaður Akureyri.net spjallaði við Braga Þór um sumarið og spennandi framtíð hvannarinnar í Hrísey, sem gæti mögulega farið að nýtast fólki um víða veröld áður en langt um líður.
Hríseyjarhvönn stefnir á alþjóðlegan markað
„Það er svolítið spennandi verkefni í gangi núna, en við vorum að senda fyrstu sendingu af hvönn úr Hrísey til Kína,“ segir Bragi. „Það fór pakki með 60 kg af þurrkaðri hvönn þangað um daginn og það er möguleiki að við getum sent meira í ár. Eigendur Iceherbs, sem við erum í viðskiptum við, hafa verið að koma okkur í samband við nýjan markað, þau eru dugleg að fara erlendis á sýningar með vörurnar sínar.“
Hér fer fram vigtun á hvannarlaufinu sem hefur verið tínt. Bragi stendur vaktina. Myndir: Kristín Björk Ingólfsdóttir
Byrjuðu að tína fyrir 20 árum
„Við tínum laufið af hvönninni, sem vex frjáls í eyjunni. Við erum með samkomulag við Akureyrarbæ og landeigendur um nýtinguna,“ segir Bragi. „Þetta byrjaði fyrir rúmlega 20 árum, þegar Saga Medica óskaði eftir að kaupa hvönn. Þau voru að framleiða allskonar lyf úr hvannalaufi og við tókum hvannafræ fyrir þau líka, sem þau voru að framleiða VOX hálsmolana úr. Nýlega voru breytingar hjá þeim, og í dag erum við að selja fyrirtæki sem heitir Iceherbs, og þau eru að blanda saman hvannalaufi og hvannarót og setja í hylki.“
„Hvönnin á að gera ýmislegt gott fyrir fólk,“ segir Bragi, en á vef Iceherbs má sjá að hvannarótarhylkin þeirra eru helst markaðssett til þess að hafa góð áhrif á þvagrásarkerfið og fækka salernisferðum. Einnig á jurtin að vera góð fyrir meltingu og getur unnið á brjóstsviða og virkað við uppþembu.
Hætt að tína fyrr en vanalega
„Við erum í rauninni hætt að tína óvenju snemma í ár, vegna þess að maí var svo hlýr,“ segir Bragi. „Laufið er farið að gulna núna vegna þess að það spratt fyrr en venjulega í ár. Svo erum við frekar róleg vegna þess að viðskiptin eru búin að breytast töluvert. Við vorum alltaf bara með einn kaupanda, sem var Saga Medica, en það fyrirtæki var keypt fyrir stuttu og samningar náðust ekki aftur eftir þær breytingar. Eins og er, erum við að vinna í að byggja upp nýjan markað, sem er mjög spennandi vinna.“
Á hverju ári kemur starfsfólk til Hríseyjar til þess að tína hvönn, Jan er frá Tjekklandi og var að klára fjórða sumarið sitt í Hrísey. Myndir: Kristín Björk Ingólfsdóttir
Lækningamáttur hvannarinnar dularfullur
„Hún er mjög dularfull þessi planta, hún hefur ólík áhrif á ólíkt fólk og fer svolítið sínar eigin leiðir,“ segir Bragi. „Það eru dæmi þess að fólk með krabbamein hafi góða reynslu af því að taka inn hvönn. Meinið virðist standa í stað hjá einhverjum sem prófa þetta, en ekki öllum. Hvönnin á að vera góð fyrir blöðruhálsinn líka.“
„Við erum svo sjálf að framleiða te úr hvönninni,“ segir Bragi. „Við seljum það í heilsuhúsum og Akureyrarapóteki. Það heitir bara Hríseyjarhvönn, fyrir áhugasama. Teið er reyndar mjög gott, það kom mér í rauninni á óvart hvað það er gott!. Ætli það sé ekki vegna þess að við blöndum hvönninni við Spánarkerfil, sem er með svona anís eða lakkrísbragð. Teið er eiginlega svona 50/50 hvönn og kerfill. Við tökum líka hvannafræ og búum til krydd úr því.“