Fara í efni
Menning

Höndlað við Pollinn; saga verslunar og viðskipta

Bókin komin út! Frá vinstri: Ragnar Sverrisson, Ólöf Dagný Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska bókmenntafélags, Jón Þ. Þór, höfundur bókarinnar, Ingólfur Sverrisson og Sigurður Jóhannesson. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, sem á sæti í ritnefnd ásamt Ragnari, Ingólfi og Sigurði, var fjarverandi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Út er komin bókin Höndlað við Pollinn - Saga verslunar og viðskipta á Akureyri frá öndverðu til 2000. Sagnfræðingurinn Jón Þ. Þór er höfundur bókarinnar, sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út.

„Sögu verslunar og viðskipta á Akureyri undanfarnar fjórar aldir má skipta í nokkur býsna skýrt afmörkuð tímabil. Hvert þeirra hefur sín einkenni og öll settu þau með einum eða öðrum hætti svip á kaupstaðinn, tilurð hans vöxt og ásýnd,“ segir höfundur í bókinni. Þarna á hann í fyrsta lagi við einokunaröldina, hið langlengsta þessara tímabila, í öðru lagi er það fríhöndlunarskeiðið, og þriðja tímabilið hófst, segir Jón, þegar verslun Íslendinga við aðrar þjóðir var gefin frjáls hinn 1. apríl 1855 og stóð fram í fyrri heimsstyrjöld á árunum 1914 til 1918; – „nær samfellt uppgangsskeið og miklar breytingar urðu á allri verslun og viðskiptum í bænum.“

KEA og öflugt einkaframtak

Jón segir síðan: „Fjórða tímabilið í verslunarsögu Akureyrar hófst um það bil sem fyrri heimsstyrjöldinni lauk og stóð út tuttugustu öld, til loka þess tíma sem frásögn þess rits tekur til. Margir, ekki síst þeir sem lítið þekkja til sögu verslunar og viðskipta á Akureyri, gætu freistast til þess að kenna þetta tímabil við Kaupfélag Eyfirðinga og kallað „kaupfélagsöld“, „stórveldisskeið KEA“, eða eitthvað í þá áttina.“ Það sé hins vegar hvorki sanngjarnt né rétt, þótt blómaskeið í sögu KEA hafi verið frá því um 1920 og framundir aldarlok, því félagið hafi aldrei verið allsráðandi og við hlið þess þrifist allt þetta tímabil fjölmörg öflug einkafyrirtæki.

Jón Þ. Þór upplýsir í aðfararorðum að hugmynd að bókinni hafi kviknað í samtali þeirra frænda, hans og Ingólfs Sverrissonar, þegar þeir ræddu yfirlitsgrein Ragnars bróður Ingólfs – Ragga í JMJ –  um sögu verslunar á Akureyri sem birtist í Akureyrarblaði Morgunblaðsins árið 2014. Í kjölfarið hafi bræðurnir brett upp ermar, fengið í lið með sér Sigurð Jóhannesson, fyrrverandi aðalfulltrúa KEA og Úlfhildi Rögnvaldsdóttur, þáverandi formann Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri, og hafist handa við að safna fé til verksins. Það gekk vel og þá var ekki aftur snúið.