„Hóhó Hóflegri“ drykkju um jólin gerð góð skil
Í dag, föstudaginn 5. des, kom út nýtt norðlenskt jólalag, en það eru þeir Daníel Andri Eggertsson og Vilhjálmur B. Bragason sem skelltu laginu Hó hó Hófleg drykkja um jólin á streymisveitur um hádegisbilið. „Lagið er brakandi ferskur jólaslagari úr smiðjum Villa & Dandra,“ segir Daníel Andri við blaðamann Akureyri.net. „Í laginu mætast gráglettinn texti um jólahald sem fer úr böndunum og gríðarleg stemning innblásin af Mariah Carey, Stjórninni og jólalögum níunda áratugarins.“
Í laginu fylgjumst við með fjölskylduföður sem viðhefur hóflega drykkju á aðfangadagskvöld, allavegana til þess að byrja með. Vilhjálmur syngur lagið, en hann er helst þekktur fyrir að vera Vandræðaskáld og leikari, en það mætti segja að leiklistarhæfileikar hans komi sterkir inn, en söguhetjan fer að verða þvoglumæltur þegar líða tekur á lagið.
Von á meiri tónlist frá Villa og Dandra
„Þetta lag er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu okkar félaga, Söngvar meðaljónsins,“ segir Daníel Andri. „Platan er óður til meðaljóna íslensks samfélags (okkar allra að einhverju leyti) og er hvert lag um mismunandi meðaljón, á öllum aldri, sem fást við blákaldan hversdagsleik. Textarnir eru með grín-ívafi, eru einlægir og varpa kastljósi á hinar ýmsu aðstæður sem eru vanalega ekki í forgrunni. Mikill metnaður er lagður í lögin sjálf.“
Daníel segir að búast megi við næstu smáskífu af plötunni í janúar, þar sem annar meðaljón kemur í ljós. Bjarki Ómarsson stjórnaði upptökum á jólalaginu, útsetti það og mixaði og Karlakór Akureyrar kemur sterkur inn í lokahluta lagsins. „Þá er ótalið danska saxafónsénið Thomas Edinger sem bókstaflega blæs saxafónsvartagaldri í allt saman,“ segir Daníel Andri að lokum, og bersýnilegt að meðaljónar veraldarinnar eiga von á góðu úr smiðju Villa og Dandra.
Hér má hlusta á nýja lagið