Fara í efni
Fréttir

Hlýtur að vera áfall fyrir formann og stjórn

Jólagarðurinn í Eyjafjarðarsveit. Sveitarfélagið var eitt þeirra 20 sem lögðu fram einu tillöguna á …
Jólagarðurinn í Eyjafjarðarsveit. Sveitarfélagið var eitt þeirra 20 sem lögðu fram einu tillöguna á þingi Sambands sveitarfélaga í gær. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Tillaga frá 20 sveitarfélögum, þar sem lagt var til að hafnað yrði lögfestingu íbúalágmarks í sveitarstjórnarlög, var felld á Landsþingi sambands sveitarfélaga í gær. Eins og fram hefur komið á Akureyri.net voru Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Grýtubakkahreppur á meðal þeirra sem lögðu tillöguna fram.

„Formaður Sambandsins talaði mjög ákveðið gegn tillögunni og lýsti andstöðu 10 stjórnarmanna af ellefu. Miðað við það fékk tillagan mjög góðar viðtökur, umræða um hana var góð og málefnaleg. Hún var felld með 54% gegn 44% eða 67 atkvæðum gegn 54, sem hlýtur að vera mikið áfall fyrir formann og stjórn. Þessi niðurstaða staðfestir að [Aldís Hafsteinsdóttir] formaður sambandsins hefur farið með rangt mál um samstöðu sveitarstjórnarstigsins um íbúalágmark,“ segir Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi við Akureyri.net.

„Ráðherra opnaði hins vegar á það að halda áfram með frumvarp um styrkingu sveitarstjórnarstigsins án ákvæðis um íbúalágmark. Ég tel að það muni verða niðurstaðan. Við erum afskaplega þakklát fyrir þann hljómgrunn sem okkar málflutningur fékk, ég tel að enn fleiri séu sammála okkur í hjarta sér, þó þeir hafi ekki treyst sér til að kjósa gegn formanni og stjórn. Sambandið þarf síðan að horfa inn á við og skoða hvernig það sinnir sínu hlutverki í hagsmunagæslu fyrir sín aðildarfélög.“

Þröstur segir líkur á að minni sveitarfélög myndi með sér formlegan félagsskap á næstunni til að sinna hagsmunagæslu, „nema mikil stefnubreyting verði á störfum sambandsins,“ eins og hann orðaði það.

Ekki haldbær rök fyrir 1000 íbúa lágmarki