Fara í efni
Fréttir

Hlíðarskál: Bráðnað á milli jökulfannanna

Á þessari mynd sést að bráðnað er milli jökulfanna í Hlíðarskál. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Margir lesendur akureyri.net hafa haft samband undanfarið og vakið athygli á stöðunni á fönnunum í Hlíðarskál í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Í skálinni eru þrjár jökulfannir og þykir sæta tíðindum ef snjóhaft bráðnar milli efstu fannarinnar og þeirrar neðstu á sumrin. Hvað þá að það hafi gerst í júlímánuði, eins og raunin hefur orðið í ár.

 

Þessi mynd er tekin 16. júlí sl. Hlíðarhryggur fyrir miðri mynd og Hlíðarskál vinstra megin við hann. Þarna sést að á þessum tíma var ennþá snjótenging milli efri og neðri jökulfanna í Hlíðarskál. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.

Grúsk í gömlum fréttum leiðir í ljós að haftið bráðnaði bæði árið 2003 og 2004 og þá mundu elstu menn ekki eftir að það hefði gerst í einhverja áratugi. Jón Ingi Cæsarsson, sem nú er nýlátinn, fylgdist vel með Hlíðarskálinni og hann taldi að þetta hefði reyndar gerst hlýindasumarið 1996. Síðan þá hafi þessar jökulfannir þynnst ár frá ári og árið 2008 velti Jón Ingi því fyrir sér í bloggfærslu hvort þær muni ekki hreinlega hverfa innan fárra ára. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur vakti athygli á innleggi Jóns Inga þetta sama ár og í bloggfærslu Einars birtir hann t.d. áhugaverða mynd frá 1990 til samanburðar. 

Ívar Sigmundsson, sem var forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli í áratugi, hefur lengi fylgst með því sem er að gerast í fjallinu. Hann rifjaði upp í samtali við akureyri.net að á árum áður hafi verið hægt að ganga að sumarlagi upp Hlíðarhrygg, sem er norðan Hlíðarskálar, og renna sér niður á skíðum þar sem nú er syðsti hluti skíðasvæðisins og kallast Dalurinn. Þá var sísnævi þar en langt er síðan þetta var mögulegt síðast.

Aðrir viðmælendur taka undir þetta - mikill merkjanlegur munur er á sísnævinu í Hlíðarfjalli og þróunin er greinilega bara í eina átt. Og greinilegt er að það eru margir sem fylgjast grannt með því sem gerist í Hlíðarskál ár frá ári.