Fara í efni
Mannlíf

Hjólagleðin við völd í sólinni – MYNDIR

Myndir: Rúnar Kristmannsson

Gleðin var við völd í Kjarnaskógi á sunnudaginn þegar hátt í 100 krakkar á aldrinum 2 til 12 ára komu þar saman á fyrsta hjólamóti Krónunnar, Akureyrardætra og Hjólreiðafélags Akureyrar. Veðrið skemmdi ekki beinlínis fyrir, sólin skein skært í logninu og hiti var hátt í 20 gráður.

Um var að ræða fyrsta hjólamótið sem Krónan heldur á Akureyri en það er haldið að fyrirmynd Krónumótsins í Öskjuhlíð sem er orðinn árlegur viðburður í september ár hvert. 

Yngsta kynslóðin fór fyrst af stað á sparkhjólum og eldri flokkar komu í kjölfarið. Hjólakapparnir í BMX BRÓS mættu og sýndu listir sínar við góðar undirtektir og það er næsta víst að leikurinn verður endurtekinn að ári, svo vel þótti til takast.