Fréttir
Hjalti Jón og Hermann kynna og árita í dag
05.12.2025 kl. 11:00
Hjalti Jón Sveinsson, fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, sendi á dögunum frá sér bókina Með frelsi í faxins hvin – Riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni, þar sem segir frá Hermanni, sem er frá Vík og Hvolsvelli og hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini. Hjalti Jón og Hermann kynna og árita bókina á milli kl. 17 og 18 í dag í verslun Eymundsson á Akureyri.
„Bók þeirra félaga hefur fengið mjög góða dóma og runnið út eins og gómsætt soðbrauð að norðan. Að sjálfsögðu láta allir hestaáhugamenn á Norðurlandi sjá sig þarna og varla mun skorta fjörið,“ segir í tilkynningu frá bókaútgáfunni Hólum
Tamning hrossa og hestaferðir hafa verið hugsjón Hermanns alla tíð „og með ólíkindum eru sum viðfangsefni hans á því sviði eins og Vatnareiðin 2009,“ segir m.a. í kynningu á bókinni. „Þá reið Hermann ásamt félögum sínum yfir allar ár sem á vegi þeirra urðu frá Höfn í Hornafirði og vestur fyrir Hvítá. Fjallað er um Stjörnureiðina svokölluðu sem Hermann skipti í tvo 40 daga leiðangra árin 2016 og 2018 þvers og kruss yfir landið.“
Þá segir frá Flosareiðinni árið 2016 þegar Hermann ásamt tveimur félögum sínum riðu í spor Flosa og brennumanna frá Svínafelli í Öræfum að Þríhyrningshálsum í því skyni að sannreyna frásögn Njálssögu.