Fara í efni
Fréttir

„Hittumst áfram með hjálp tækninnar“

Fundur kvennanna í FKA á dögunum var rafrænn eins og mjög tíðkast um þessar mundir.
Fundur kvennanna í FKA á dögunum var rafrænn eins og mjög tíðkast um þessar mundir.

„Óháð öllu Covid ástandi þá munum við halda áfram að hittast með hjálp tækninnar hjá FKA,“ segir Fjóla Karlsdóttir stjórnarkona FKA Norðurlandi, um félagstarf í takt við nýja tíma og kostina við tæknina í þeim efnum. FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu, er öflugt tengslanet kvenna úr öllum greinum atvinnulífsins, leiðandi hreyfiafl sem styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameinar þær til aukins sýnileika og þátttöku um land allt.

„Áskoranir eru margar þær sömu hjá félagskonum um land allt og stjórnir allra landsbyggðadeilda FKA hittust með stjórn FKA á Teams í vikunni til að bera saman bækur,“ segir Fjóla. Hún er framkvæmdastjóri Vorhús á Akureyri og stjórnarkona FKA Norðurlandi, sem fyrr segir. „Hlutverk landsbyggðadeilda er að efla konur á landsbyggðinni og styrkja tengslanet í nærumhverfi og sambandið hefur verið meira en áður við hinar landsbyggðadeildir FKA á tímum Covid,“ segir Fjóla og bendir á að tengslanet FKA sé góð leið til að næra sig og vera samferða öðrum konum í gegnum áskoranir á tímum sem þessum.

Stjórnarkonur ræddu áherslur og áskoranir vetrarins um land allt á rafrænum fundi FKA í vikunni sem leið. „Starfsemi nefnda og deilda FKA er auðvitað í takt við nýja tíma og hefur verið öflugt. Tæknin hefur breytt sviðsmyndinni að minnsta kosti tímabundið,“ segir Fjóla og bendir á að eitt af því sem Covid hefur fært sér sé samtal við fleiri félagskonur. „Óháð öllu Covid ástandi þá munum við halda áfram að hittast með hjálp tækninnar og næstu misserin njóta dagskrár félagsins. Það er Sýnileikadagur fyrir félagskonur eftir áramót, fjölmiðlaverkefnið er að fara af stað með RÚV, við erum byrjaðar að hita upp fyrir Viðurkenningarhátíð FKA á Hringbraut og þannig má lengi telja.“

FKA er félag fyrir konur sem eru stjórnendur og leiðtogar í íslensku atvinnulífi, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera. Markmiðið er að efla þátt kvenna og auka sýnileika þeirra. Landsbyggðadeildirnar eru FKA Norðurland, FKA Suðurland og FKA Vesturland. „Heimsfaraldurinn má ekki taka meira af okkur en þegar hefur orðið,“ segir Fjóla að lokum.

HÉR er hægt er að sækja um aðild að FKA