Fara í efni
Menning

Hendrikka Waage sýnir á Bláu könnunni

Fimmtudaginn 16. febrúar næstkomandi verður opnuð sölusýning á málverkum Hendrikku Waage skartgripahönnuðar og listakonu, í Bláu Könnunni á Akureyri. Sýningin stendur til 12. apríl.

Hendrikka Waage hefur starfað í London sem skartgripahönnuður síðastliðin 20 ár. Hún byrjaði fyrir nokkrum árum samhliða þeirri vinnu að mála seríuna Wonderful Beings þegar hún stundaði nám við listaháskólann  Art academy of London. „List hennar og hönnun eru undir áhrifum frá ríkum menningarhefðum þeirra landa sem hún hefur búið í, þar á meðal Japan og Rússlandi. Hendrikka býr í Bretlandi,“ segir í tilkynningu.

„Málverkin hafa vakið mikla athygli. Þetta er einfalt mótíf af konum með eitt eyra. Alla daga streymir endalaust af upplýsingum til okkar úr öllum áttum og við erum heilaþvegin af hinu og þessu þannig að ég ákvað að hafa einungis eitt eyra á þeim – til að minna áhorfandann á við þurfum ekki að hlusta á allt sem er sagt. En svo auðvitað vil ég leyfa áhorfandanum að túlka verkin á þann hátt sem hann sér það,” segir Hendrikka um hugmyndina á bak myndirnar af konunum sem hún málar.

Hendrikka hefur haldið myndlistar sýningar í Reykjavik og í London.

@hendrikkawaagearts