Fara í efni
Fréttir

Helga Bragadóttir prestur í Glerárkirkju

Helga Bragadóttir hefur verið ráðin prestur við Glerárkirkju. Hún tekur til starfa 1. september og leysir af hólmi séra Stefaníu Steinsdóttur, sem hefur verið í leyfi síðustu misseri og leyst af í Akureyrarkirkju en hverfur nú til starfa annars staðar. Sóknarprestur í Glerárkirkju er séra Sindri Geir Óskarsson

Þrjú sóttu um starfið í Glerárprestakalli, tvö óskuðu nafnleyndar og „valnefnd kaus Helgu Bragadóttur mag. theol til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hennar,“ segir í frétt á vef Þjóðkirkjunnar.

Helga er fædd árið 1991 á Akranesi og ólst upp á Siglufirði og síðar í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2011 og hóf nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands haustið 2014.

Þriðji ættliður í prestþjónustu

Helga útskrifaðist með mag. theol.-próf frá Háskóla Íslands veturinn 2021. Hún lauk framhaldsmenntun í sálgæslu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2022.

„Helga hefur starfað í unglingastarfi og sunnudagaskóla í Grafarvogskirkju og í barnastarfi og sunnudagaskóla í Víðistaðakirkju ásamt því að gegna starfi kirkjuvarðar í afleysingum,“ segir á vef Þjóðkirkjunnar.

Sambýliskona Helgu er María Ósk Jónsdóttir, grafískur hönnuður hjá Já. Þær eiga fimm ára gamlan dreng.

„Helga er þriðji ættliðurinn sem vígist til prestsþjónustu. Faðir hennar sr. Bragi J. Ingibergsson er sóknarprestur í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði, áður á Siglufirði og afi hennar sr. Ingiberg J. Hannesson fv. prófastur þjónaði alla sína starfsævi í Dölunum,“ segir í frétt á vef Þjóðkirkjunnar.