Fara í efni
Fréttir

Heiðdís Norðfjörð er látin, áttræð að aldri

Heiðdís Norðfjörð er látin, áttræð að aldri

Heiðdís Norðfjörð, fyrrverandi læknaritari og rithöfundur, lést í fyrradag, 7. janúar. Heiðdís fæddist á Akureyri 21. desember 1940 og var því nýorðin áttræð.

Hún tók próf frá húsmæðraskólanum á Laugalandi 1959 og útskrifaðist sem sjúkraliði 1975. Eftir það var Heiðdís læknaritari héraðslæknisembættisins og á Heilsugæslustöðinni á Akureyri um langt árabil. Hún veitti síðan elliheimilinu í Skjaldarvík forstöðu í allmörg ár, Heiðdís var einnig meðhjálpari við Akureyrarkirkju og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu.

Heiðdís skrifaði sögur fyrir börn og unglinga og út komu nokkrar barnabækur eftir hana. Hún sá um tíma um morgunstund barnanna hjá Ríkisútvarpinu og til eru margar hljóðupptökur með upplestri hennar. Hún orti einnig ljóð og samdi tónlist enda liðtækur píanisti. Þekktust eru lög Heiðdísar við Ævintýrið um Pílu Pínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Þau komu út á hljómplötu árið 1980. Seinna skrifaði Heiðdís leikrit við sögu Kristjáns. Heiðdís fékk viðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar 2010 fyrir mikilvægt framlag til menningarlífs á Akureyri.

Eiginmaður Heiðdísar er Gunnar Jóhannsson bifvélavirki. Synir þeirra eru Gunnar Gunnarsson, Jón Norðfjörð og Jóhann Valdemar Norðfjörð.

Foreldrar Heiðdísar voru Jón Norðfjörð, bæjargjaldkeri og leikari hjá Leikfélagi Akureyrar, og Anna Guðrún Helgadóttir, húsfreyja og verkefnastjóri í Reykjavík. Heiðdís var ættleidd af Jóhönnu Ingvarsdóttur Norðfjörð, sem giftist Jóni árið 1945 og ólst upp hjá henni frá fjögurra ára aldri.