Fara í efni
Fréttir

Hátíðarhöld með öðru sniði en ætlað var

Blómabíllinn ók um götur Akureyrar 17. júní í fyrra, í fyrsta skipti í mörg ár. Hann verður aftur á …
Blómabíllinn ók um götur Akureyrar 17. júní í fyrra, í fyrsta skipti í mörg ár. Hann verður aftur á ferðinni á morgun.

Hátíðarhöld á Akureyri á morgun, þjóðhátíðardaginn 17. júní, verða með nokkuð öðru sniði en ætlað hafði verið því vegna fjöldatakmarkana, sem nú miðast við aðeins 300 manns, varð að aflýsa fjölskylduskemmtun á MA-túninu vestan Lystigarðsins, skv. upplýsingum frá Akureyrarbæ. Á móti kemur að dagskráin í Lystigarðinum lengist nokkuð með fleiri uppákomum. Til að fyrirbyggja of mikla hópamyndun í garðinum verður samkomuflötinni við skrúðhúsið skipt í tvö hólf frá vestri til austurs.

Í fyrra var sú hefð að blómabíll keyri um bæinn endurvakin og hann verður á ferðinni undir hádegi með þjóðhátíðarkveðjum til bæjarbúa. Klukkan 12.45 leggur skrúðganga Lúðrasveitar Akureyrar og Skátafélagsins Klakks af stað frá Hamarskotstúni, suður Byggðaveg að Álfabyggð og þaðan fram hjá Hjúkrunarheimilinu Hlíð niður á Þórunnarstræti og inn í Lystigarðinn.

Þar hefst síðan hátíðardagskrá um klukkan 13.15. Lúðrasveit Akureyrar leikur undir stjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur, skátar hylla fánann og séra Guðrún Eggerts Þórudóttir flytur hugvekju. Sönghópur skipaður fulltrúum kóra á Eyjafjarðarsvæðinu syngur þjóðsönginn og félagar úr Yngri og Eldri barnakór Akureyrarkirkju syngja Sálminn um fuglinn eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur. Stjórnandi er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir. Fjallkonan, Inda Björk Gunnarsdóttir, flytur ávarp og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir nokkur orð.

Því næst munu nýstúdentar marsera um garðinn, Ronja ræningjadóttir stígur á stokk og loks verður boðið upp á tónleika með Tríói Akureyrar.

Klukkan 15.00 býður áhöfnin á eikarbátnum Húna II til siglingar um Pollinn en hámarksfjöldi gesta um borð verður 70 manns. Fyrstur kemur, fyrstur fær.