Fara í efni
Menning

Hátíð jaðartónlistar að bresta á hjá MBS

Aldís Dagmar Erlingsdóttir Svarkur, listrænn stjórnandi MBS og Jón Haukur Unnarsson, slímmálaráðherra. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Allt er að smella fyrir menningarhátíð MBS kollektívsins; Mannfólkið breytist í slím. Hátíðin hefst á slaginu átta í kvöld, fimmtudaginn 17. júlí, og samanstendur af þrennum tónleikum, fimmtudag, föstudag og laugardag. Hátíðin er nú haldin í áttunda sinn, en árlega frá 2018 hefur slímið runnið á Akureyri. Jón Haukur Unnarsson er slímmálaráðherra og Aldís Dagmar Erlingsdóttir Svarkur er listrænn stjórnandi hátíðarinnar, en þau gáfu sér tíma fyrir viðtal þrátt fyrir að enn væri verið að gera og græja fyrir opnun kvöldsins.

Við eigum það öll sameiginlegt að vilja sjá litríkt menningarlíf í heimabænum okkar

MBS hefur fyrir reglu, að hátíðin er aldrei haldin á sama stað, þannig að í aðdraganda hátíðarinnar þarf að finna húsnæði. Í ár er það iðnaðarhúsnæði að Kaldbaksgötu 9. „Það er allt að verða klárt, stressið er yfirleitt mest í byrjun og svo þegar maður sér hlutina koma saman þá minnkar það,“ segir Jón Haukur. Aldís tekur undir það og segir að staðan sé mjög góð, mikið af sjálfboðaliðum hafi lagt hönd á plóg og stuðningur fyrirtækja á svæðinu sé mjög góður og mikilvægur. 

 

Allt er heimagert, föndrað, skapað og stemningin á svæðinu er eftir því - líf og litir. Mynd: RH

Skapandi hópur frá Akureyri

„Við erum ansi sjóuð í þessu, eftir að halda hátíðina í átta ár,“ segir Jón Haukur. „Hópurinn er mjög flæðandi, við erum í grunninn vinahópur sem ólst upp á Akureyri á sama tíma og er framtakssamur. Öll erum við í skapandi greinum; hönnuðir, tónlistarfólk, myndlistarfólk, dansarar svo eitthvað sé nefnt. Fólk er misvirkt á hverjum tíma, það er ekkert félagatal og fólk kemur og fer. Við eigum það öll sameiginlegt að vilja sjá litríkt menningarlíf í heimabænum okkar.“ 

Uppsetning svæðisins er í rauninni myndlistarverk í sjálfu sér

„Fyrstu árin voru einir tónleikar, sem hefur svo þróast yfir í að hafa þrenna tónleika frá fimmtudegi til laugardags þar sem eru færri atriði hverju sinni. Þróunin er þannig, að fyrri hluti dagskrár hvert kvöld, er rólegri. Svo bætir í þegar líður á og verður gott partí. Sérstaklega föstudags- og laugardagskvöld,“ segir Jón Haukur.

 

Útisvæðið býður upp á samveru og ekki spillir fyrir að í ár verður matarvagn í fyrsta skipti. Mynd: RH

Jöfn kynjaskipting og 2/3 atriða úr heimabyggð

„Fjölbreytni atriða er mikilvæg fyrir okkur, en það er ekki verið að bjóða upp á popptónlist,“ segir Jón Haukur. „Þetta er oft í óvenjulegri kantinum, við viljum að fólk nái að uppgötva eitthvað nýtt. Þungarokk hefur verið áberandi, tilraunakennd raftónlist og hip hop líka, en það er ekki tæmandi listi. Jaðartónlist er kannski besta lýsingin. Síðan 2021 höfum við svo líka séð einhverja gjörningalist í bland við tónlistina. Við erum svo með þá reglu að 2/3 hluti af listamönnum séu frá svæðinu eða hafi sterka tengingu hingað, einnig eiga kynjahlutföll að vera sem jöfnust.“ 

„Við höfum sérstakan áhuga á að fá inn atriði sem eru mitt á milli tónlistar og gjörningaformsins,“ segir Jón Haukur. „Atriði sem eru með ríkulega sviðsframkomu. Það hjálpar svo til þegar rýmið sjálft er skapandi, það styður við lifandi performans.“

 

„Nýjung í ár, er að við erum að bjóða upp á myndlist félaga okkar líka,“ segir Aldís. Hér má sjá hluta þeirra verka sem eru til sýnis. Mynd: RH

Myndlist og matarvagn koma sterk inn

„Uppsetning svæðisins er í rauninni myndlistarverk í sjálfu sér, hönnunin, skreytingarnar og alltsaman, en núna erum við líka með myndlistasýningu í rýminu sem hefur verið draumur um nokkurt skeið,“ segir Aldís um nýjungar ársins. „Það getur verið flókið að skipuleggja umgjörðina, þegar við flytjum okkur stöðugt um hátíðarstað, en núna erum við að ná myndlistinni inn af fullum krafti. Einnig erum við að sýna ljósmyndir frá tónleikum fyrri ára, til þess að sýna sögu og þróun hátíðarinnar.“

„Það er eiginlega alltaf eitthvað nýtt á hverju ári, vegna þess að við erum stöðugt að vinna með ný rými,“ segir Jón Haukur. „Annað sem er nýtt í ár, er matarvagninn okkar. Við vorum með bar í fyrsta skipti í fyrra, sem verður aftur, og nú bætist maturinn við. Þar eru tveir veitingastjórar sem eru auðvitað listamenn líka!“

 

Ljósmyndir ertu til sýnis, af hátíðum fyrri ára. Mynd: RH

Tæknimálin eru í góðum höndum. Mynd: RH

Praktísku hlutirnir komnir í rútínu

Það er ekki hægt að skella upp mannmörgum viðburði með áfengissölu og tónleikum án þess að hugsa fyrir praktísku hlutunum, en Jón Haukur segir að það sé komin mjög góð reynsla á það núna, að hafa þessi atriði í lagi og fá tilskilin leyfi. „Við fáum heilbrigðiseftirlitið, slökkvilið og lögreglu til þess að fara yfir málin með okkur og samþykkja rýmið sem við erum í. Það er dýrmætt að fá eftirlitsaðila til þess að koma og benda okkur á hvað þarf að passa, hvar gæti verið slysahætta og svo framvegis,“ segir slímmálaráðherrann.

„Það skiptir okkur gríðarlegu máli að passa vel upp á gestina okkar og að sýna nærumhverfinu virðingu,“ segir Aldís. „Þetta er samfélagsverkefni og það eru svo margir sem koma að þessu. Til þess að geta haldið áfram ár frá ári, þarf að vanda sig. Ég hef trú á því að það séu þessi atriði sem hafa fengið akureyrskt samfélag í lið með okkur, en fyrirtæki á svæðinu hafa verið dugleg að aðstoða og styrkja okkur, sem er ofboðslega dýrmætt.“

 

Allskonar varningur er til sölu, en það kostar ekki inn á hátíðina. Frjáls framlög eru vel þegin og einnig geta gestir keypt fatnað, plötur og fleira. Mynd: RH

 


Dagskrá Mannfólkið breytist í slím 2025:

Fimmtudagurinn 17. júlí

  • 20:00 Cohortis
  • 20:40 Ólöf Rún
  • 21:30 Hugarró
  • 22:20 Daveeth

Föstudagurinn 18. júlí

  • 20:00 Show Guilt
  • 20:40 Setningarathöfn – Egill Logi Jónasson verndari MBS 2025
  • 21:00 gubba hori
  • 22:00 Pitenz
  • 23:00 Saint Pete
  • 23:45 Kött Grá Pjé
  • 00:45 In3dee

Laugardagurinn 19. júlí

  • 20:00 Melodi
  • 20:40 Alter Eygló
  • 21:30 Biggi Maus & MeMM
  • 22:30 Duft
  • 23:30 Gróa
  • 00:30 MC Myasnoi
  • 01:30 Lu_x2

Samstarfs- og styrktaraðilar MBS 2025 eru: Akureyrarbær, Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra, KEA, Tónlistarsjóður, Prentmet/Oddi, Norðurorka, Segull 67, HS Kerfi, Akureyri Backpackers, Aflið & Rás 2.

Viðburðurinn á Facebook

Heimasíða MBS

MBS á Instagram

MBS á Facebook