Harmonikan heiðruð í Hofi á sunnudaginn

Harmonikan verður heiðruð í tali og tónum Hofi á sunnudaginn kemur. Það eru þær Hrund Hlöðversdóttir og Agnes Harpa Jósavinsdóttir sem standa fyrir tónleikunum, sem þær nefna einfaldlega Harmonikan heiðruð.
„Hvað þarf að gerast til að hugmynd verði að veruleika? Reglulega koma skemmtilegar hugmyndir upp í kollinn en það er bara ein og ein sem tekur flugið og hlutgerist í raunheimum,“ segir Hrund við Akureyri.net og bætir við að einstök hugmynd, sem skaust í gegnum huga henni fyrir nákvæmlega ári síðan, verði að mikilli upplifun áheyrenda í Hofi á sunnudaginn.
Þar verða leiddir saman tónlistarmenn sem flytja harmonikutónlist frá ólíkum tónlistarstílum, segir Hrund. „Áheyrendur munu fá að kynnast því hversu magnað hljóðfæri harmonikan er með fjölbreyttri efnisskrá allt frá hefðbundinni balltónlist til nútímatónlistar þar sem öskursungið er við undirleik harmonikunnar.“
Hrund Hlöðversdóttir harmonikuleikari með meiru. Slátt ár er síðan hún fékk hugmynd að tónleikum þar sem harmonikan yrði heiðruð.
Fjölbreytni í efnisvali tónleikanna endurspeglar þróun hljóðfærisins í gegnum árin, að hennar sögn. Dagskráin hefst óformlega klukkan 14:30 þegar gestir geta heyrt harmonikuna óma við veitingastaðinn Mói Bistro. Hátíðartónleikar hefjast síðan klukkan 16:00 í tónleikasalnum Hömrum. Þar mun hópur af fremstu harmonikuleikurum landsins flytja fjölbreytta tónlist.
Viðburðurinn er haldinn í tengslum við alþjóðadag harmonikunnar sem er 6. maí, ár hvert en þetta verður í fyrsta sinn á Norðurlandi og mögulega á landinu öllu sem slíkur viðburður er haldinn á þennan hátt, segir Hrund. „Markmiðið er ekki aðeins að heiðra harmonikuna heldur einnig að vekja athygli á mikilvægi hennar fyrir íslenska menningararfleifð.“
Fjórskiptir tónleikar
Tónleikarnir á sunnudaginn, 4. maí, hefjast klukkan 16:00 sem fyrr segir. Þeir eru fjórskiptir og tekur hver fjórðungur um tuttugu mínútur.
- Harmonikuleikarinn Ásta Soffía Þorgeirsdóttir hefur tónleikana meðal annars með íslenskum tangóum sem hafa verið henni hugleiknir.
- Þar á eftir munu áheyrendur heyra Tríó Mýr leika kvikmyndatónlist Ennio Morricone sem þekktur er fyrir ódauðlega kvikmyndatónlist. Tríó Mýr skipa harmonikuleikarinn Jón Þorsteinn Reynisson, sellóleikarinn Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og gítarleikarinn Daniele Basini.
- Eftir hlé tekur Flemming Viðar Valmundsson við og spilar verk eftir Grieg og síðan mjög svo nútímalegt verk þar sem harmonikan fær aldeilis að njóta sín.
- Síðasti fjórðungurinn er síðan í höndum Stórsveitar FHUE undir stjórn Roar Kvam en þá spila ellefu harmonikur við undirleik hrynsveitar þekkt lög erlend og íslensk.
„Þetta ársferli í undirbúningi hefur gengið mjög vel en mikil vinna liggur að baki viðburði sem þessum. Við fengum styrki bæði frá Verðandi listsjóði á vegum Menningarfélags Akureyrar og einnig úr Uppbyggingasjóði SSNE,“ segir Hrund Hlöðversdóttir. „Einleikararnir á tónleikunum ferðast um langan veg frá Noregi og Danmörku og erum við þakklátar að fá þau til okkar alla leið til Akureyrar. Við færum öllu því listafólki þakkir sem mun taka þátt í þessu ævintýri með okkur og hlökkum til að fylla Hamra 4. maí þar sem harmonikan verður heiðruð.“
Stórsveitar FHUE ásamt stjórnandanum, Roar Kvam. Sveitin spilar þekkt íslensk og erlend lög við undirleik hrynsveitar.
Vinsælt hljóðfæri
Harmonikan er tiltölulega nýtt hljóðfæri í tónlistarsögunni og varð ekki til í sinni núverandi mynd fyrr en í byrjun 19. aldar, að sögn Hrundar. Fljótlega eftir það er talið að hún hafi komið til Íslands með frönskum sjómönnum en þeir komu til að vinna við hvalstöðvar víða um land. Íslendingar voru lítið farnir að semja eigin dægurlög á þessum tíma og voru því flest lögin komin frá farandverkamönnunum.
Hljóðfærið varð fljótt vinsælt í dægurmenningu Íslendinga og íslenskir harmonikuleikarar fóru að líta dagsins ljós. Frá því að harmonikan barst til landsins hefur hún verið mikilvæg í íslenskri þjóðmenningu, ekki aðeins sem hljóðfæri heldur einnig mikilvægur liður í að skapa félagstengsl á milli fólks, segir Hrund. Á 19. öld, áður en grammófónar og hljóðtæki urðu algeng, spilaði harmonikan lykilhlutverk í tónlistarlífi landsins, sérstaklega úti á landi þar sem hljóðfærið var aðgengilegt og hentaði vel fyrir samkomur og dansleiki. Hljóðfæraleikarar þurftu oft að ganga langar leiðir eða fara á hestbaki með harmonikuna í poka á bakinu.
Margir landsmenn eiga tengingu við harmonikuleik og hugsa með hlýhug til einhvers sem spilaði á hljóðfærið þeim tengdum.
„Mig langaði til að skipuleggja tónleika þar sem tónleikagestir myndu heyra marga tónlistarstíla og sjá og upplifa nokkra af okkar allra bestu íslensku harmonikuleikurum leika listir sínar á hljóðfærin. Harmonikan getur komið í stað heillar hljómsveitar, hún getur spilað viðkvæm stef á undurblíðan hátt og framkallað mikinn og ærandi hávaða,“ segir Hrund Hlöðversdóttir. „Ég ákvað að þessu sinni að leyfa fagfólkinu að sjá um harmonikuleikinn en vera sjálf í hlutverki kynnis og sjá um verkefnastjórn ásamt samstarfskonu minni Agnesi Hörpu Jósavinsdóttur. Við erum báðar áhugasamar um harmonikuleik og spilum báðar á harmonikur. Með viðburðinum í Hofi erum við að láta draum rætast um að heiðra harmonikuna og gera henni hátt undir höfði.“