Harðbakur EA „kemur aftur heim“ í dag

Síðutogarinn Harðbakur EA3 kemur aftur heim, segir í tilkynningu um viðburð á Torfunefsbryggju kl. 14.00 á í dag, laugardag. Ekki er það þó gamli, góði síðutogarinn sem leggst að bryggju heldur er samkoman haldin í því skyni að afhjúpa líkan af honum sem Elvar Þór Antonsson hefur smíðað.
Það eru fyrrverandi sjómenn á togurum Útgerðarfélags Akureyringa sem standa fyrir smíði líkansins eins og fimm þeirra fyrri úr smiðju Elvars Þórs af skuttogurum ÚA; Kaldbak EA 301, Svalbak EA 302, Sléttbak EA 304, Harðbak EA 303 og Sólbak EA 5. Þau líkön verða öll til sýnis við Torfunefið í dag.
- Heiðursgestir við athöfnina verða tveir úr áhöfn Harðbaks í Nýfundnalandstúrnum 1959 þegar gerði slíkt gjörningaveður og grimmdarfrost í nokkra sólarhringa að margir voru í stórhættu og einn íslenskur togari, Júlí frá Hafnarfirði, fórst með allri áhöfn, 30 mönnum.
Akureyri.net hefur fjallað um líkön Elvars undanfarin ár, til dæmis þegar þrjú þeirra voru afhjúpuð í lok síðasta árs við hátíðlega athöfn. Hér má sjá þá frétt:
Glæsileg líkön þriggja ÚA togara afhjúpuð
Ástæða er til að hvetja bæjarbúa til þess að gera sér ferð á Torfunefsbryggju í dag og skoða öll þessi glæsilegu líkön.
Hér má sjá auglýsinguna sem birt var um viðburðinn á Torfunefsbryggju: