Fara í efni
Mannlíf

Handmokaði Krabbastíg og fór létt með það!

Guðmundur Þorsteinn Gunnarsson fyrir utan hús sitt við snjóléttan Krabbastíg í vikunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Gífurlega mikið snjóaði á Akureyri frá því í lok síðustu viku og fram yfir helgi. Tugir moksturstækja voru í notkun frá morgni til kvölds, umferðargötur voru hreinsaðar og margar íbúðagötur, en ekki gafst tími til að moka snjó úr þeim öllum.

Guðmundur Þorsteinn Gunnarsson, íbúi við Krabbastíg, greip þá til sinna ráða – aðallega að gamni sínu – og mokaði alla þá götu, vopnaður skóflu og sköfu. Rétt er að taka fram að Krabbastígur er með stystu götum bæjarins, en samt sem áður hátt í 100 metra langur.

„Ég sagði við konuna mína á föstudagskvöldinu að ég væri að spá í að moka alla götuna daginn eftir. Hún hélt auðvitað að ég væri að grínast, en þegar ég vaknaði á laugardagsmorgni dreif ég bara í þessu,“ segir Guðmundur Þorsteinn við Akureyri.net. „Ég sagði börnunum reyndar að ég ætlaði í spinning á eftir og þetta væri bara upphitun!“

Gatan var kolófær þegar hann kom fór út um morguninn. „Ég skóf ekki alveg niður í malbik eins og þeir gera á mokstursvélunum en gatan var samt vel fær; lítill Yaris keyrði upp Krabbastíginn eins og ekkert væri þegar ég var búinn að moka,“ segir hann.

Guðmundur er vanur að taka vel á því; vaknar klukkan fimm alla virka morgna og fer á tveggja tíma crossfit æfingu. „Mér fannst ekkert sérstaklega erfitt að moka götuna. Var með í tónlist í eyrunum og hafði satt að segja bara gaman að þessu. Fór svo í spinning þegar ég var búinn,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt Garmin snjallúri Guðmundar tók það hann eina klukkustund og tvær sekúndur að hreinsa götuna! Geri aðrir betur.

Þessi vel hreinsaða gata, breytti hratt um svip þegar leið á daginn, eins og aðrar götur Akureyrar. Á laugardagskvölið var Krabbastígur orðin kolófær á ný!