Fara í efni
Mannlíf

Halda tónleika í Höllinni fjölmennustu helgina

Steinar Bragi Laxdal, til vinstri, og Hinrik Svansson, eigandi HS kerfa í Íþróttahöllinni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Steinar Bragi Laxdal, liðlega tvítugur Akureyringur, skipulagði fjölmarga viðburði í Verkmenntaskólanum á Akureyri á meðan hann var formaður Þórdunu, nemendafélags skólans. Hann segist eiginlega ekki geta hætt – og stendur í næsta mánuði fyrir tónleikum í Íþróttahöllinni.

„Mig langar að hrista aðeins upp í skemmtanalífinu á Akureyri,“ segir Steinar Bragi, spurður hvað komi til að hann tekur slaginn.

Þeir sem koma fram á tónleikunum eru Jakob Möller, Séra Bjössi, JóiPé, Húbba Búbba, Háski og SZK (Sprite Zero Klan).

Gat ekki annað en sagt já

Hinrik Svansson, eigandi hljóðkerfa- og ljósaleigunnar HS kerfa á Akureyri, tekur þátt í ævintýrinu með Steinari Braga. „Við kynntumst þegar  Steinar var formaður nemendafélags VMA og þegar hann kom með þessa hugmynd til mín í byrjun árs gat ég ekki annað en sagt já,“ sagði Hinrik við Akureyri.net. „Ég sagði bara að ef hann myndi sjá um að bóka listamennina myndi ég sjá um búnaðinn. Ég hef sennilega komið að öllum tónleikum í Höllinni síðustu 10 ár og er alltaf til í það; hef gaman að því þegar aðrir hafa áhuga á því líka.“

Tónleikarnir í Höllinni verða laugardagskvöldið 14. júní og tímasetningin er ekki tilviljun. Það er hentugt vegna þess að Hinrik verður með tæki sín og tól í húsinu vegna brautskráningar stúdenta frá Menntaskólanum á Akureyri, sem verður 17. júní að vanda, og hátíðahalda í tengslum við það.

Þá telja þeir félagar að fleiri verði á Akureyri þessa daga en nokkra aðra helgi ársins – 30 til 35 þúsund manns. Kemur þar tvennt til, annars vegar brautskráningin og hátíðahöld júbílanta frá MA, hins vegar árlegir Bíladagar sem Bílaklúbbur Akureyrar stendur fyrir; þeir verða frá 13. til 17. júní.

Mjög góð aðsókn í fyrra

Hinrik kom að tvennum stórum tónleikum á síðasta ári og segir aðsókn hafa verið mjög góða. „Það komu á milli 900 og 1000 á Aldamótatónleikana og 1500 til 1600 manns á tónleika Rottweiler.“

Steinar Bragi og Hinrik eru því bjartsýnir og segja miðasölu fara vel af stað enda hafi þeir verðið eins lágt og kostur er. „Miðinn í forsölu kostar ekki nema 3.500 krónur. Það verður margt ungt fólk í bænum og við viljum að allir hafi efni á því að koma á tónleikana. Þess vegna höfum við verðið eins lágt og mögulegt er,“ segir Steinar Bragi.