Hagahverfi: langþráð leiksvæði í bígerð

Áform um leiksvæði innan lóða fjölbýlishúsa sem gert var ráð fyrir þegar Hagahverfið var skipulagt hafa ekki gengið eftir og hafa íbúar í hverfinu lýst mikilli óánægju með aðstöðu barna og afþreyingarmöguleika þeirra í hverfinu. Þetta kemur fram í minnisblaði um frágang leiksvæða í Hagahverfi og Naustagili sem unnið var fyrir umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar.
„Núverandi leikvellir bjóða hvorki upp á nægilega fjölbreytt úrval leiktækja né svæði sem henta mismunandi aldurshópum barna. Þetta hefur valdið því að fjölskyldur þurfa reglulega að leita út fyrir hverfið til að finna viðeigandi leiksvæði fyrir börn sín,“ segir meðal annars í minnisblaðinu. Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkti nýverið að fela umhverfis- og mannvirkjasviði að bæta núverandi leiksvæði og útbúa nýtt samverusvæði í Naustagili.
Framkvæmdir við umrædd leiksvæði rúmast innan fjárheimilda ársins 2025.
Tvö í Hagahverfi og eitt í Naustagili
Um þrjú svæði er að ræða, tvö þeirra inni í Hagahverfinu og eitt í Naustagili. Staðsetningar þessara svæða eru merktar inn á loftmyndina hér að neðan. Eitt er við Geirþrúðarhaga milli Kristjáns- og Margrétarhaga, annað við Halldóruhaga milli Matthíasar- og Nonnahaga og það þriðja í Naustagilinu norðan Davíðshaga.
Þessi loftmynd sýnir staðsetningu umræddra svæða við Halldóruhaga, Geirþrúðarhaga og í Naustagili. Teiknað inn á map.is/akureyri.
Ný leiktæki og stígur við Geirþrúðarhaga
Hugmyndin er að koma fyrir leiktækjum á leiksvæðinu við Geiðþrúðarhaga og fjarlægja jafnframt rennibraut, bát og klifurbretti sem þar eru nú. Þá verði bætt við gróðri og stíg austan við leiksvæðið.
Hugmynd að uppbyggingu leiksvæðis við Geirþrúðarhaga. Skjáskot úr minnisblaði fyrir umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar.
Leiksvæðið við Geirþrúðarhaga eins og það lítur út í dag. Myndirnar eru úr minnisblaði umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Tjörnin fjarlægð og svæðið afgirt
Staðsetning leiksvæðisins við Halldóruhaga gerir það að verkum að nauðsynlegt er að huga að afmörkun leiksvæðisins frá götum vegna nálægðar við umferð bifreiða og hættu sem af því stafar.
Þá er á svæðinu tjörn sem valdið hefur foreldrum miklum áhyggjum vegna slysahættu. Í henni eru óþrif sem að hluta til koma úr niðurföllum gatna, auk mikillar gróðurmyndunar og ólyktar vegna kyrrstöðu vatnsins. „Í ljósi þessara atriða og fjölda áskorana frá foreldrum er lagt til að tjörnin verði fjarlægð og sett á svæðið fjölbreyttir leikmöguleikar,“ segir í minnisblaðinu.
Hugmynd að uppbyggingu leiksvæðis við Halldóruhaga. Skjáskot úr minnisblaði fyrir umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar.
Leiksvæðið við Halldóruhaga eins og það lítur út í dag. Myndirnar eru úr minnisblaði umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Áhersla á að klára Naustagilið
Fram kemur í minnisblaðinu að lögð verði áhersla á að klára Naustagilið þar sem hverfið er að taka á sig lokamynd.
„Naustagilið getur orðið náttúruperla með fallegu umhverfi, læk og skógi sem gæti skapað vinsælt og öruggt umhverfi fyrir börn og fjölskyldur. Komið verður fyrir grillhúsi og minni leiktækjum. Eins verða göngustígar endurbættir, svæði afmarkað betur frá götu og plantað trjám og runnum,“ segir meðal annars um þetta svæði.
Loftmynd sem sýnir hugmyndir að uppbyggingu leiksvæðis í Naustagili. Skjástkot úr minnisblaði umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Myndir úr Naustagilinu, norðan Davíðshaga. Skjáskot úr minnisblaði umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Þá er einnig hugmyndin að göngustígur sunnan við Krókeyrarnöf verði færður nær læknum, á svæði sem er jafnara og betra til göngu, og muni halda áfram í austur þar sem hann tengist núverandi stígakerfi. Á næstu árum væri svo mögulegt að tengja hverfið með skógarstíg inn í Kjarnaskóg. „Sá stígur myndi skapa skjólgóða og einstaklega fallega gönguleið,“ segir í minnisblaðinu.
Á þessari mynd má sjá hugmynd að nýrri legu göngustígs sunnan við Krókeyrarnöf (rautt) og legu núverandi stígs (grænt). Teiknað á map.is/akureyri.