Fara í efni
Fréttir

Hætta á gróðureldum og malbik bráðnar

Sólin hefur sýnt sínar allra bestu hliðar á Norðurlandi síðustu daga. Góða veðrið heldur áfram þessa vikuna en rigningu er spáð á laugardag. Mynd: Jonathan Borba/Unsplash

Ekkert lát virðist vera á blíðviðrinu sem ríkt hefur undanfarna daga en áfram er útlit fyrir þurrt og sólríkt veður. Á meðan mannfólkið fagnar sólinni kvarta vegirnir hins vegar yfir hitanum en hefur orðið vart við bikblæðingar víða um land, þar á meðal á Norðurlandi.

Bikblæðingar verða þegar bikið í klæðningu veganna hitnar og mýkist, sem leiðir til þess að steinefni í yfirborðinu geta sokkið niður í bikið eða losnað. Þetta gerist helst við ákveðnar aðstæður t.d. eins og í hita og sól.

Á Norðurlandi hefur orðið vart við bikblæðingar við Víðigerði, á Ólafsfjarðarvegi og á Víkurskarðsvegi. Eins á Mývatnsheiði og á Aðaldalsvegi. Vegagerðin hvetur vegfarendur til að draga úr hraða á þessum stöðum.

Þá hvetur Veðurstofan fólk til að fara varlega með eld þar sem töluverðar líkur eru á gróðureldum í þurrviðrinu þar sem gróður hefur enn ekki tekið við sér að fullu.