Fara í efni
Menning

Gyða og Einar sýna tímalaus augnablik

Einar Guðmann og Gyða Henningsdóttir við opnun sýningarinnar í Gallerí Fold á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Gyða Henningsdóttir og Einar Guðmann opnuðu ljósmyndasýninguna Tímalaus augnablik í Gallerí Fold við Rauðarárstíg í Reykjavík á laugardaginn. 

Þar sýna hjónin listrænar náttúruljósmyndir. „Hvernig er hægt að fjarlægja augnablik úr ljósmyndum? Í eðli sínu festa ljósmyndir ákveðið augnablik í tíma og rúmi,“ segja þau hjón í sýningarskrá. Þar segir að þau leitist að þessu sinni við að fjarlægja augnablikið, „skapa rými fyrir ímyndunaraflið og um leið að ögra sinni eigin hugmyndafræði um náttúruljósmyndun.“

Hjónin búa á Akureyri og hafa sinnt nátturuljósmyndun af miklum krafta undanfarin ár. „Við förum frjálslega með abstrakt form. Bætum við eða fjarlægjum liti í tilraun til að skapa tímaleysi. Tökum einnig skref í átt að svarthvítri náttúruljósmyndun,“ segja þau um myndirnar sem pryða nú veggi Foldar.

„Í myndvinnslu minnum við okkur á að ekkert er bannað. Ímyndunaraflið getur málað út fyrir strigann. Tilfinningin fyrir myndinni fær að ráða. Ímyndunaraflið fyllir upp í eyðurnar og skapar nýja mynd á hverjum degi.“