Fara í efni
Íþróttir

Grátlegt í lokin en KA/Þór enn efst með Fram

Hulda Bryndís Tryggvadóttir lék vel í kvöld og gerði fimm mörk. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.
Hulda Bryndís Tryggvadóttir lék vel í kvöld og gerði fimm mörk. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Stjarnan og KA/Þór gerðu jafntefli, 25:25, í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta kvenna – Olísdeildinni – í Garðabænum í kvöld. Norðanstelpur voru í kjörstöðu í lokin; höfðu tveggja marka forystu þegar eina mínúta var eftir, 25:23, en misstu af gullnu tækifæri til að setjast einar í efsta sætið.

KA/Þór og Fram eru nú efst og jöfn með 18 stig að 12 umferðum loknum og Valur í þriðja sæti með 15 stig. Tvær umferðir eru eftir: KA/Þór tekur á móti Val um næstu helgi og mætir Fram á útivelli í síðustu umferðinni um aðra helgi, þannig að keppnin um deildarmeistaratitilinn verður spennandi. Að þessu loknu tekur við úrslitakeppni þar sem barist verður um þann stóra – Íslandsmeistaratitilinn.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í tæpan einn og hálfan mánuð, vegna Covid samkomutakmark og verkefna landsliðsins. Eins og margoft hefur komið fram var viðureign liðanna í febrúar dæmt ólögmæt vegna mistaka á ritaraborði; hvort lið gerði 26 mörk en einu of mikið var skráð á KA/Þór, sem sigraði þar með í leiknum. Eftir kærumál og tilheyrandi leiðindi varð niðurstaðan að liðin skyldu mætast á ný.

KA/Þór var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:9, náði sex marka forskoti snemma í seinni hálfleik, 17:11 og aftur 18:12. Þegar hálfleikurinn var hálfnaður var munurinn fimm mörk en svo tóku heimamenn að saxa hægt og bítandi á forskotið. Staðan var 21:20 fyrir KA/Þór þegar átta mínútur voru eftir, Stjarnan jafnaði 22:22 fimm mínútum fyrir leikslok en Stelpurnar okkar náðu aftur tveggja marka forystu og þannig stóð þegar síðasta mínútan hófst sem fyrr segir.

Stjarnan minnkaði muninn og KA/Þór hóf sókn þegar 30 sekúndur voru eftir. Aldís Ásta Heimisdóttir komst í dauðafæri en varið var frá henni, Stjarnan brunaði fram og jafnaði fáeinum sekúndum fyrir leikslok.

Athygli vakti að Marta Hermannsdóttir var í liði KA/Þórs á ný eftir langa fjarveru vegna meiðslu. Ekki var gert ráð fyrir að hún næði að leika á ný í vetur en mikilvægt að fá hana inn í hópinn. Marta gerði tvö mörk í kvöld.

Mörk KA/Þórs í kvöld: Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 5/3,  Rut Jónsdóttir 4/1 Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Martha Hermannsdóttir 2/2.

Matea Lonac varði 18 skot (2 víti) – 44% skota sem hún fékk á sig.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum