Fara í efni
Fréttir

Gönguleiðin að Lamba verður bætt í sumar

Göngustígagerð á Glerárdal heldur áfram í sumar. Meðal verkefna sumarsins er bygging á nýrri göngubrú við Lamba.

Áin við Lamba hefur verið farartálmi hjá göngufólki en í leysingum hefur hún rifið með sér fyrri brýr sem þar hafa verið. Í sumar verður bætt úr og ný brú byggð á nýjum og öruggari stað. „Efnið í brúna fór á brúarstað í vetur en Ferðafélag Akureyrar ætlar að smíða brúna í sumar,“ segir Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfis- og sorpmála hjá Akureyrarbæ. Hann segir að brúin verði veglegri en sú fyrri og þá verður hún staðsett töluvert neðar í ánni á mun betri stað upp á leysingar að gera. Samhliða brúargerðinni verður göngustígurinn einnig færður nær Gleránni.

Aðstæður erfiðar

Undanfarin þrjú ár hefur Akureyrarbær unnið að stígagerð á Glerárdal en árið 2020 hlaut bærinn 21 og hálfa milljón króna styrk í verkið úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og árið 2021 fékk bærinn 23,8 milljóna króna styrk úr sama sjóði. Verkinu var skipt upp í þrjá áfanga. Fyrsta áfanga er lokið sem og helmingi af öðrum áfanga. Jón Birgir segir að verkinu miði hægar en upphafleg plön gerðu ráð fyrir og verkefnið klárast líklega ekki fyrr en eftir tvö ár. Aðstæður séu erfiðar á dalnum þar sem þar vori seint og þá sé seinlegt að koma efni á staðinn. „Síðastliðið haust fengum við þyrlu til að koma með salla í stígana og þá fór þetta fyrst að ganga.“

Auknar vinsældir Glerárdals

Jón Birgir segir aukinn áhuga fólks á gönguleiðum á Glerárdal vera gleðilegan. Fjöldi fólks sæki þangað, ekki síst eftir að hringurinn upp að stíflunni var bættur. Hann er um 7 km langur og er orðinn að mjög vinsælli gönguleið. „Þetta er skemmtileg og temmilega löng leið. Fram undan er viðhald á þeirri leið og eins stendur til að setja upp borð og fleiri merkingar á þeirri leið. Annars bíðum við bara eftir því að sumarið komið til að geta haldið áfram vinnunni við stígagerð á svæðinu.“