Fara í efni
Fréttir

GLEÐILEGT SUMAR!

Líf og fjör var í skrúðgöngu þátttakenda í Andrésar andar leikunum frá Lundarskóla að Íþróttahöllinni í gærkvöldi. Myndir: Þorgeir Baldursson

Sumardagurinn fyrsti er runninn upp og því ber að fagna. Veturinn er þar með formlega að baki en synd væri reyndar að segja að sú fallega árstíð, sumarið, sé mætt í allri sinni dýrð því veðrið hefur oft verið betra en í dag.

En dagatalið lýgur ekki og á þessum degi ársins er orðið jafn öruggt að keppni hefjist á Andrésar andar leikunum í Hliðarfjalli og að Íslendingar trúi því að sumarið sé komið.

Þessir árlegu leikar sem kenndir við öndina Andrés eru stærsta skíðamót landsins, keppendur eru tæplega 900 á aldrinum 4-15 ára. Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 3-4000 manns sæki leikana með einum eða öðrum hætti, að sögn skipuleggjenda.

Setningarathöfn leikanna fór fram í Íþróttahöllinni í gærkvöldi að lokinni hefðbundinni skrúðgöngu frá Lundarskóla. Leikarnir eru nú haldnir í 48. skipti. Keppni hefst klukkan 9.00 í dag og lýkur um miðjan laugardag.

Akureyri.net óskar krökkunum góðrar skemmtunar í Hlíðarfjalli og lesendum nær og fjær gleðilegs sumars!

Facebook síða Andrésar andar leikanna

Söngvarinn Prettyboitjokko – Patrik Snær Atlason – skemmti krökkunum á setningarhátíð Andrésar andar leikanna í Íþróttahöllinni í gærkvöldi. Myndir: Þorgeir Baldursson