Fara í efni
Íþróttir

Gleðibankinn opinn á ný eftir stutt frí!

Gleðin við völd! Rakel Sara Elvarsdóttir fagnar einu átta mark sinna í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallg…
Gleðin við völd! Rakel Sara Elvarsdóttir fagnar einu átta mark sinna í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs unnu afar sannfærandi átta marka sigur á Haukum, 34:26, í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta í kvöld í KA-heimilinu.

Eftir leikinn er KA/Þór komið upp í þriðja sæti Olís deildarinnar með sjö stig eftir fimm leiki. Fram er á toppnum með aðeins tveimur stigum meira að loknum jafn mörgum leikjum.

Stelpurnar okkar hafa ekki verið sannfærandi í deildinni fram að þessu, en í kvöld sýndu þær meira af gömlu, góðu hliðunum en áður. Ekki síst var gleðin við völd og þá var ekki að sökum að spyrja!

Fyrri hálfleikurinn var jafn og staðan að honum loknum 17:14. En skjótt skipast veður í lofti; á fyrstu 12 mínútum seinni hálfleiks gerðu heimamenn átta mörk en gestirnir aðeins eitt. Staðan þá orðin 25:15, úrslitin ráðin og Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, leyfði nokkrum máttarstólpum liðsins að hvíla lúin bein. Þær stelpur sem lítið hafa fengið að spreyta sig í vetur fengu að sýna hvað í þeim býr, sem er auðvitað mikilvægt. Hvíldin er ekki síður dýrmæt fyrir hinar, því gríðarlega erfitt ferðaleg í Evrópuleikina í Kósóvó um daginn hefur án efa setið í leikmönnum undanfarið.

Rakel Sara Elvarsdóttir gerði 8 mörk í leiknum, Ásdís Guðmundsdóttir 7, Rut Jónsdóttir 4 (1 víti), Martha Hermannsdóttir 4 (1 víti), Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Telma Lísa Elmarsdóttir 2, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Arna Valgerður Erlingsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1 og Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1. Matea Lonac lék vel í markinu og varð 14 skot.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.