Gervihrafnar halda mávunum í skefjum

Ótvíræðir yfirburðir einnar dýrategundar setja svip sinn á miðbæinn á góðviðrisdögum, en varla er óhætt að fá sér eina með öllu án þess að mávarnir steypi sér í ránsferð í fangið á manni. Veitingarekstur við Göngugötuna hefur litast svolítið af frekjunni í mávunum, en oft er erfitt að sitja úti með matinn þegar þeir eru svangir. Sem er alltaf. Einhverjir rekstraraðilar hafa reynt að gera ráðstafanir, og eigendur Kaffi Ilms eru þar á meðal. „Við keyptum fyrst uglu, til þess að reyna að hræða þá í burtu,“ segir Annemieke Presburg, annar eigendanna við blaðamann Akureyri.net.
Uglan virkaði ekki vitund, og mávarnir hlógu bara að henni, enda situr hún grafkyrr og þeir hafa verið fljótir að sjá í gegnum bragðið. Þá fóru eigendurnir að leita á veraldarvefnum og fundu þessa gervihrafna hjá Fóðurblöndunni, sem er með allskyns búvörur til sölu meðal annars. Vert er að taka fram að þessi frétt er ekki unnin í samstarfi, hrafnarnir vöktu einfaldlega áhuga hjá blaðamanni.
Annemieke Presburg hefur rekið Kaffi Ilm í fjögur ár. Mynd: RH
T.v. Uglan sem gerði ekkert gagn, en fær þó að standa áfram. T.h. Hrafninn er festur við stöng sem tryggir að hann fer ekki langt, og svífur um í öruggum radíus yfir gestum kaffihússins. Myndir: RH
Svörtu fuglarnir virka á mávinn
„Ég veit ekki hvort að þetta eigi að vera hrafn, en allavega einhver hræðilegur svartur fugl. Það mikilvæga er að hann virkar, ef það er vindur og hann hreyfist,“ segir Annemieke. „Við erum með tvo og þeir virka bara einmitt þar sem þeir eru, þannig að við þurfum eiginlega einn í viðbót til þess að ná að að dekka alla veröndina.“
„Það munar sannarlega um veðrið,“ segir Annemieke, aðspurð um gengið í sumar. „Í dag eru til dæmis ekki nein stór skemmtiferðaskip, en það er búið að vera mikið að gera og mikið af Íslendingum. Þau mæta þegar veðrið er gott!“ Nú er fjórða sumarið sem hún er með kaffihúsið í fallega gamla húsinu við Hafnarstræti 107b, og það er yfirleitt mest að gera þegar skipin eru í höfn og veðrið leikur við landann.
Mávahláturinn kominn til að vera
Mikið líf er í Göngugötunni þegar viðtalið er tekið síðdegis á mánudegi í 20 stiga hita og sól. Hópur barna að leika sér á leiksvæðinu, smekkfullt á útisvæði Centrum neðar í götunni og mávarnir leika við hvurn sinn fingur. Barn missir pylsuna sína á hlaupum og þaulæfðir eru þeir mættir eins og Akureyringar við opnun Lindex á Glerártorgi. En friðurinn ríkir ofar í brekkunni, þar sem gott er að geta setið í öruggu skjóli frá hröfnunum við Kaffi Ilm, en mávarnir hafa enn ekki séð í gegn um þá. Gott er að rifja upp að Kristján frá Djúpalæk kallaði krumma 'fljúgandi myrkur', og ekki að ástæðulausu.
Það er nú mikið sagt, að mávarnir hræðast ekki einu sinni Grýlu, sem stendur í öllu sínu veldi við götuna fyrir neðan kaffihúsið, þannig að kannski er bara um tímaspursmál að ræða, hvenær þeir hræðast engan og ekkert.
Þessi er kannski á flótta frá fjúgandi myrkrinu. Mynd: RH