Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
09.01.2026 kl. 06:00
Vikulega birtist gömul ljósmynd á akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 270. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.
Hefur þú, lesandi góður, hugmynd um hvar húsið á þessari mynd dagsins stendur ellegar stóð? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um myndina eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin frábæra hér að neðan birtist fyrir viku. Í erindi frá Helgu Hallgrímsdóttur segir: Gamla myndin er tekin á Botni í Hrafnagilshreppi, (nú Eyjafjarðarsveit). Á myndinni er Indriði Helgason (hann krýpur og er að flokka og þurrka kartöflur)og synir hans fjórir, Þorbjörn, lengst til vinstri, Jóhann, Páll og Hallgrímur lengst til hægri. Indriði bjó á Botni á árunum 1921-1931 á samt eiginkonu sinni Helgu Hannesdóttur. Þau áttu einnig dæturnar Maríu og Sigurlaugu. Þau fluttu 1931 í Dvergstaði. Indriði var föðurafi minn. Myndin er sennilega tekin rétt fyrir 1930 og líklegt að Ari Fossdal, sem var sonur Helgu ömmu minnar, hafi tekið hana.

- Allar gömlu myndirnar frá Minjasafninu á Akureyri sem Akureyri.net hefur birt er hægt að skoða HÉR