Fara í efni
Íþróttir

Fyrsta mark Bríetar og Margrét með þrennu

Hildur Anna Birgisdóttir, til vinstri, og Bríet Fjóla Bjarnadóttir eftir leikinn á Akranesi í dag. Hildur Anna var í fyrsta skipti í byrjunarliði Þórs/KA í dag og Bríet Fjóla gerði fyrsta markið í meistaraflokki. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Margrét Árnadóttir gerði þrjú mörk í dag þegar Þór/KA sigraði ÍBV 7:0 í Lengjubikarkeppninni í knattspyrnu og hin stórefnilega Bríet Fjóla Bjarnadóttir skoraði í fyrsta skipti fyrir meistaraflokk. Bríet Fjóla er fædd í janúar 2010 og varð því 14 ára í síðasta mánuði.

Þetta var fyrsti leikur Þórs/KA í keppninni í ár. Leikið var í Akraneshöllinni.

Amalía Árnadóttir, systir Margrétar, gerði fyrst mark leiksins eftir rúmlega hálftíma og Karen María Sigurgeirsdóttir kom Þór/KA í 2:0 skömmu síðar. Rétt er að taka fram að á leikskýrslunni á vef KSÍ er seinna markið skráð á Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur, en það er rangt.

Margrét gerði þrjú mörk í seinni hálfleik, Sandra María Jessen eitt og Bríet Fjóla eitt, sem fyrr segir.

Hildur Anna Birgisdóttir, sem er 16 ára, var í byrjunarliði Þórs/KA í fyrsta skipti. Hún lék fyrri hálfleikinn. Bríet Fjóla kom inná í hálfleik.

Leikskýrslan á vef KSÍ