Fara í efni
Fréttir

Fyrst og fremst mikil vinna

Gréta Björk Eyþórsdóttir og Eyþór Ævar Jónsson, eigendur Ísbúðarinnar. Myndir: Haraldur Ingólfsson

Tíu ára afmæli ber að fagna og það gerðu þau Gréta Björk Eyþórsdóttir og Eyþór Ævar Jónsson sem hafa rekið Ísbúðina við Geislagötu frá 17. maí 2013. Þau byggðu búðina upp frá grunni og stuttu seinna kom svo upp óvænt tækifæri.

Ísbúðin er reyndar meira en bara ísbúð því þau hafa bætt við svokölluðum boozt-bar, ásamt grilluðum samlokum, ferskum djúsum og fleiru. Þau bjóða líka upp á eitthvað fyrir alla, að segja má, eru með vanilluís án viðbætts sykrus, kaldar sósur og dýfu án viðbætts sykurs, laktósafrían vanilluís úr vé og vegan kúluís og krap, svo eitthvað sé nefnt – fyrir utan allt þetta hefðbunda sem hugurinn girnist í ís.


Eyþór var svo snöggur í afgreiðslunni að það gekk illa að ná óhreyfðri mind af honum við störf. 

„Við byrjuðum á þessu í mars 2013 og opnuðum 17. maí. Þetta hefur gengið vel á þessum tíma, vaxið og dafnað. Við höfum aukið vöruúrvalið með skyri, samlokum, djús og svona,“ sagði Eyþór Ævar þegar við heimsóttum þau í Ísbúðina í gær, í ágætis veðri og nóg af gestum að fá sér ís.

Þau reka einnig ísbúðina á Glerártorgi, en sá rekstur kom óvænt upp í hendurnar á þeim. „Það var óvænt, við vorum búin að vera með opið hér í tíu daga þegar okkur bauðst að taka við þeirri búð.“ Þau breyttu búðinni á Glerártorgi í samræmi við hina og segja búðirnar vega hvor aðra upp ef litið er á árstíðasveiflur.


Reksturinn á Glerártorgi kom óvænt upp í hendurnar á þeim aðeins tíu dögum eftir að þau opnuðu búðina í Geislagötunni. 

Það er mikil vinna að standa í eigin rekstri og nauðsynlegt að sinna honum vel. „Þetta er mjög mikil vinna. Við erum alltaf hérna, það má segja það. En við erum með gott starfsfólk með okkur líka. Þetta er mikið bara fólk í hlutastörfum, en við erum með nokkrar í hálfs dags eða heils dags störfum, og svo hlutastörf á móti. Við erum að bæta við núna fyrir sumarið og erum enn að bæta við,“ segir Gréta Björk.

Aðspurð segja þau reksturinn hafa gengið vel öll þessi tíu ár og þau hafi aldrei komist á það stig að vera nálægt því að gefast upp eða vilja hætta. Stundum komi erfiðir dagar, en þau taka því bara eins og það er. Heimsfaraldurinn kom ekkert svo illa við reksturinn þegar á allt er litið. Þau höfðu opið styttra og breyttu aðeins, en svo að vissu leyti hafði fólk kannski ekki margt að gera og upplagt að skreppa í ísbúðina.

„Þetta er aðallega bara mikil vinna sem fylgir því að vera með svona rekstur. Auðvitað kemur einhvern tímann sá dagur að maður hættir þessu og einhver annar tekur við,“ segir Eyþór Ævar. „Þegar maður hættir að hafa gaman af þessu þá er kominn tími til þess. Ef þú hefur ekki lengur áhuga á að halda þessu áfram svona eins og við erum að gera þetta þá er kannski tími til að hætta,“ segir Gréta Björk.


Það var nóg að gera hjá þeim í Geislagötunni á tíu ára afmælinu.