Fara í efni
Fréttir

Fullkomin nauðlending Norlandair-vélar

Höfuðstöðvar Norlandair á Akureyrarflugvelli.

Neyðarkall barst frá vél Norlandair sem var á leið frá Þórshöfn og Vopnafirði til Akureyrar skömmu fyrir hádegi með sjö farþega. Um Twin Otter-vél var að ræða og drapst á öðrum hreyflinum, en eftir því sem Akureyri.net kemst næst er hæglega hægt að fljúga Twin Otter-vélum á einum hreyfli, að minnsta kosti fyrir vana flugmenn.

RÚV greindi fyrst frá málinu upp úr kl. 12. 

Neyðarviðbúnaður var á flugvellinum, sjúkrabílar og slökkvibílar í viðbragðsstöðu. Forsvarsmenn Norlandair sögðu í samtali við Akureyri.net núna eftir hádegið að allt hefði farið eins og best var á kosið, lendingin hafi heppnast fullkomlega og engan sakað. Flugvélin var síðan færð inn í skýli á Akureyrarflugvelli og bíður þar skoðunar. Farþegunum var boðin áfallahjálp á vevum Rauða krossins ef á þyrfti að halda. 

Ein véla Norlandair, de-Havilland DHC-6 Twin Otter, á Akureyrarflugvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.